Home Fréttir Í fréttum Segja ekki teikn á lofti um bólumyndun á húsnæðismarkaði

Segja ekki teikn á lofti um bólumyndun á húsnæðismarkaði

72
0

Greiningardeild Arion banka spáir 30 prósenta verðhækkun að nafnvirði á íbúðarhúsnæði fram til ársins 2018. Verðhækkanir hafa verið umfram verðlag í fjögur ár. Hins vegar sjá greiningaraðilar ekki teikn á lofti um bólumyndun. Eftirspurn á leigumarkaði er að dvína og fleiri eru að kaupa eigið húsnæði. Þetta var meðal þess sem kom fram á morgunfundi Arion banka um húsnæðismarkaðinn í gær.

<>

Fram til 2018 spáir greiningardeildin 14,7 prósenta raunverðshækkun á íbúðarhúsnæði. Fram kom á fundinum að síðustu tíu ár hefur húsnæðismarkaðurinn ekki verið í jafnvægi á Íslandi. Spáð er áframhaldandi hækkunum á húsnæðisverði fram til ársins 2016 en svo muni hægja á verðhækkunum þegar nýbyggingar bætast í framboðið árin 2017 og 2018. Ýmsir óvissuþættir, meðal annars áhrif húsnæðisfrumvarpa og önnur opinber inngrip, ferðamenn og fleira, geta haft áhrif á húsnæðismarkaðinn.

Fram kom í ávarpi Konráðs S. Guðjónssonar, sérfræðings hjá greiningardeildinni, á fundinum að augljós bóla hefði verið á húsnæðismarkaði frá árinu 2004 fram til hrunsins árið 2008. Hins vegar séu ekki teikn á lofti um bólumyndun nú. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi hækkað í svipuðum takti og fasteignaverð síðustu ár.

Hlutfall heimila á leigumarkaði heldur áfram að lækka. Leigjendum á almennum markaði fjölgar lítillega, en leigjendum með sérstök úrræði fækkar. Kaupsamningar eru aftur orðnir fleiri en leigusamningar, í fyrsta sinn síðan 2007. Stærsti hópurinn á Íslandi er eigendur með húsnæðislán, 62 prósent, leigumarkaðurinn er 22 prósent en 16 prósent búa í skuldlausri eign.

Greiningardeildin spáir því að fólk eigi frekar eftir að flytjast af leigumarkaði næstu árin miðað við horfur í hagkerfinu. Talið er að fjárfestingaáætlanir í íbúðum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum muni duga til að mæta þörfinni fram til ársins 2018.

Heimild: Vísir.is