Sveitarfélögin gætu haft mjög mikil áhrif á lækkun byggingarkostnaðar íbúða segir Guðbergur Guðbergsson, löggiltur fasteignasali. Lóðaverð á þeirra vegum hafi hækkað ískyggilega mikið síðastliðin ár og mikilvægt sé að þrýsta á verðlækkun hjá þeim, til dæmis fyrir næstu kosningar.
Guðbergur segir hlutdeild lóðarverðs stóran bita í byggingarkostnaði en þessi hluti gleymist oft í umræðunni, sem snýst meira um að breyta byggingareglugerðinni. Það sé mikilvægt að gera en það þurfi alls ekki að horfa framhjá því sem sveitarfélögin gætu gert.
Þá segir Guðbergur að Reykjavíkurborg liggi á hagstæðum lóðum. Til að mynda séu þrjú svæði í kringum Grafarvoginn sem búið var að leggja drög að því að byggja. Núverandi borgarstjórn leggi hins vegar mestu áhersluna á miðbæinn og byggingar þar fyrir ungt fólk. Að byggja í miðbænum sé hins vegar alltaf dýrt, því þar sé fermetraverð hátt og lóðarverð mjög dýrt hjá borginni sjálfri. Þá megi ekki gleyma því að því meira sem er byggt, því meiri líkur á hagstæðari fasteignaverði vegna framboðs á eignum. Það vanti sárlega nú, sem skýri síhækkandi fasteignaverð.
Að sögn Guðbergs, á Mosfellsbær töluvert af lóðum til sölu en á höfuðborgarsvæðinu sé samt alltof lítið lóðaframboð miðað við þau svæði sem til staðar eru og hagstætt væri að byggja á.
Guðbergur var gestur í þættinum Afsal sem Hringbraut endursýnir í dag og á mánudagskvöld klukkan 21 og klukkan 23. Í þættinum er einnig rætt um húsnæðislán, kaupmála fasteignakaupenda og vermismun eigna á höfuðborgarsvæðinu í samanburði við nærliggjandi svæði eins og Suðurnes eða Selfoss.
Heimild: Hringbraut.is