Home Fréttir Í fréttum Svona vill Vegagerðin tvöfalda Suðurlandsveg við Rauðavatn

Svona vill Vegagerðin tvöfalda Suðurlandsveg við Rauðavatn

104
0
Landfylling verður gerð út í Rauðavatn. Göngu-, hjóla og reiðstígar verða endurgerðir og einnig byggðir nýir og undirgöng verða á þremur stöðum. VEGAGERÐIN

Vegagerðin undirbýr breikkun Suðurlandsvegar á fimm kílómetra kafla við bæjardyr Reykjavíkur, milli Rauðavatns og Hólmsár. Stefnt er að því að hönnun verksins verði boðin út á næstu vikum.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndband af því hvernig vegurinn kemur til með að líta út þegar búið verður að fjölga akreinum í fjórar, samkvæmt fyrirliggjandi tillögu. Umhverfismat er núna í kynningu og hafa menn frest til 16. maí næstkomandi til að gera athugasemdir til Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er þetta umferðarþyngsti tveggja akreina vegur á landinu og gera spár ráð fyrir að umferðin aukist um 30 til 50 prósent til ársins 2030. Markmið með framkvæmdinni er að bæta umferðaröryggi með því að aðskilja aksturstefnur og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg ásamt því að greiða fyrir umferð óvarinna vegfarenda.

Vegarkaflinn er umferðarþyngsti tveggja akreina vegur landsins.
STÖÐ 2/SKJÁSKOT

Verkinu verður skipt upp í tvo áfanga og er sá fyrri 1,9 kílómetra kafli á milli Bæjarháls og Norðlingavaðs. Síðar áfanginn er svo 3,4 kílómetra kafli milli á milli Norðlingavaðs og Hólmsár. Byggð verður ný brú yfir Hólmsá og eldri brú framlengd.

Landfylling verður gerð út í Rauðavatn og segir Vegagerðin að hún sé talin geta bætt lífríki vatnsins og stöðugleika vatnsyfirborðs. Hringtorg við Norðlingavað verður tvöfaldað. Göngu-, hjóla og reiðstígar verða endurgerðir og einnig byggðir nýir og undirgöng verða á þremur stöðum.

Til að byrja með er gert ráð fyrir hringtorgum, en að mislæg gatnamót leysi þau af hólmi í framtíðinni. Ný hægri beygja verður inn og út við Heiðmörk. Vinstri beygjum verður lokað. Byggt verður nýtt hringtorg við Hafravatnsveg.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, segir að hönnun verksins verði boðin út á næstu vikum. Vonir standi til að framkvæmdir hefjist árið 2024 en of snemmt sé að segja til um verklok.

Heimild: Visir.is

Previous articleReitir með heimild til að byggja þúsund nýjar íbúðir á Kringlusvæðinu
Next article20.05.2022 Skaftárhreppur óskar eftir tilboðum í jarðvinnu, sökkla og reisingu áhalda- og flokkunarhúss