Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita segir, að byggingaheimildir félagsins á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, svonefndar þróunareignir séu metnar á um 10 milljarða króna í bókum félagsins.
Félagið er með byggingaheimildir meðal annars við Natura-hótelið, í Spönginni í Grafarvogi, Blikastaðalandinu og á Kringlusvæðinu.
Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 21 í kvöld en Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita er gestur Jóns.
„Kringlusvæðið er stærsta þróunarverkefnið okkar á næstu árum,“ segir Guðjón. „Eftir að aðalskipulag Reykjavíkurborgar gekk í gegn fyrir nokkrum mánuðum er okkur heimilt að byggja þúsund íbúðir á þessum reit.
Þetta verða miklar framkvæmdir og þegar horft er á svæðið úr lofti sést að þetta er mikil þétting. Kringlusvæðið verður með hvað bestu almenningssamgöngur þegar fram líða stundir; ekki síst út af Borgarlínunni.“
Nýlega seldu Reitir byggingaheimildir sínar á Orkuhúsareitnum við Grensásveg og Suðurlandsbraut en þar er heimilt að byggja um 44 þúsund fermetra af íbúðarhúsnæði.
Heimild: Frettabladid.is