Home Fréttir Í fréttum Fram­kvæmda­kostnaður við Hótel Sögu hleypur á fjórða milljarði króna

Fram­kvæmda­kostnaður við Hótel Sögu hleypur á fjórða milljarði króna

205
0
Framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands segir vonir standa til að framkvæmdir á sérrými háskólans geti hafist um áramótin. Þó sé ekki búið að bjóða út verkið, en til standi að það verði gert á haustmánuðum. Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Í lok síðasta árs festu Ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta kaup á fasteign Bændahallarinnar ehf. við Hagatorg í Reykjavík, sem áður hýsti Hótel Sögu. Kostnaður við framkvæmdirnar er á fjórða milljarð króna og verklok áætluð á sumarmánuðum 2024.

<>

Samfélag Húsnæðið mun koma til með að þjóna nýju hlutverki fyrir komandi kynslóðir, en Háskóli Íslands ásamt Félagsstofnun stúdenta ætla að nýta húsið undir starfsemi Háskólans sem og stúdentaíbúðir.

Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands, segir að engar formlegar framkvæmdir séu hafnar af hálfu Háskóla Íslands, sem kemur til með að nýta tvo þriðju hluta af þeim tuttugu þúsund fermetrum sem húsið hefur upp á að bjóða.

„Við fengum húsið endanlega í okkar hendur núna í apríl og erum í óðaönn að greina þarfir menntavísindasviðs og fleiri sem munu eiga aðsetur í húsinu.“ Þá séu hugmyndir Háskólans á þá leið að útboð vegna framkvæmda verði snemma á haustmánuðum.

„Með það fyrir augum gætu framkvæmdir þá hafist um næstu áramót,“ segir Guðmundur, en kostnaðar­ramminn sé þrír milljarðar fyrir þann hluta sem Háskólinn komi til með að nýta.

Aðspurður segir Guðmundur framkvæmdirnar meðal annars felast í viðgerðum utanhúss sem og steypuviðgerðum. Þá þurfi að skipta um glugga og til standi heilmiklar framkvæmdir á þakinu.

„Innan húss þarf að opna nokkrar hæðir og byggja þær aftur upp í ljósi þeirra viðmiða sem stjórnvöld boða þegar kemur að húsnæði ríkisstofnana um verkefnamiðuð vinnurými.“

Þá segist Guðmundur vona að í framhaldinu geti Háskóli Íslands flutt starfsemi sína í húsið sumarið 2024.

Byggingastjóri Félagsstofnunar stúdenta segir að í ljósi þess að Hótel Saga sé eitt helsta kennileiti Reykjavíkurborgar verði haldið í einkenni hússins. Því sé ekki á dagskrá að hrófla mikið við ásýnd þess. Fréttablaðið/Hari

Þótt framkvæmdir séu ekki ennhafnar af hálfu Háskóla Íslands er Félagsstofnun stúdenta (FS) komin vel af stað í því ferli. Magnús Orri Einarsson, byggingastjóri FS, segir framkvæmdir hafa byrjað um miðjan febrúar og heildarkostnaður sé um 850 milljónir.

„Við fórum strax í að skoða stöðuna á húsinu, hvað þyrfti að gera og í beinu framhaldi var farið að rífa niður allt sem rífa þurfti innan húss. Aðspurður um hvernig framkvæmdir gangi segir Magnús verkinu miða vel og að í lok maí geti fyrstu drög að uppbyggingu hafist. „Tímaramminn sem við gefum okkur í þessa framkvæmd stendur fram til febrúar á næsta ári.“

Engar framkvæmdir eru hafnar utanhúss eins og staðan er í dag, en Magnús segir rannsóknarvinnu þó á lokametrunum.

„Þetta fer í lokað útboð og verða nokkrir verktakar valdir til að taka þátt. Þetta er verk af slíkri stærðargráðu að það eru ekki allir sem geta tekið svona verk að sér.“

Að sögn Magnúsar er ekki komin tímasetning á útboðið þar sem enn sé verið að reikna út kostnað.

Aðspurður um hvort til standi að breyta miklu þegar kemur að ásýnd hússins segir Magnús að haldið verði í einkenni þess.

„Við ætlum ekki að skipta um liti eða breyta útliti hússins. Það verður meira og minna eins og það var. Það var alltaf undirliggjandi að reyna að halda húsinu sem mest í sínu fyrra formi, því þetta er sannarlega kennileiti og við ætlum ekki að hrófla of mikið við því.“

Heimild: Frettabladid.is

Loading..