Húsasmiðjan ehf., sem rekur Húsasmiðjuna, Blómaval og Ískraft, hagnaðist um 1,5 milljarða króna á síðasta rekstrarári.
Velta byggingavöruverslunarinnar Húsasmiðjunnar hefur aukist talsvert á undanförnum árum. Þannig velti félagið 24 milljörðum króna í fyrra og jókst veltan um 20% á milli áranna 2020 og 2021. Um er að ræða 28% aukningu frá árinu 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn hófst á Íslandi.
Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir nam tæpum 1,4 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 48% á milli ára. Árið 2019 var rekstrarhagnaðurinn einungis tæpar 19 milljónir króna og hefur því rúmlega sjötíufaldast á milli áranna 2021 og 2019.
Hagnaður félagsins fyrir skatta í fyrra nam 1,5 milljörðum króna, sem er 66% aukning frá árinu 2020 þegar hagnaðurinn nam 900 milljónum króna. Þegar litið er til ársins 2019 má sjá að hagnaður félagsins var tæpar 55 milljónir króna fyrir skatta. Hagnaðurinn hefur því tæplega þrjátíufaldast á milli áranna 2019 og 2021.
Greiða 600 milljónir í arð
Stjórn Húsasmiðjunnar hefur lagt til að greiða út arð að fjárhæð 600 milljónir króna til hluthafa á árinu 2022 vegna rekstrarársins 2021. Enginn arður var greiddur til hluthafa Húsasmiðjunnar á árunum 2020 og 2021 vegna rekstraráranna 2019 og 2020.
Húsasmiðjan er hluti af dönsku byggingavörukeðjunni BYGMA sem stafrækir verslanir í Danmörku, Svíþjóð, á Íslandi og í Færeyjum. Þannig er Húsasmiðjan ehf. dótturfélag Bygma Ísland ehf., sem er síðan dótturfélag Bygma Gruppen A/S.
Heimild: Vb.is