Home Fréttir Í fréttum 26,5 milljarðar í hernaðaruppbyggingu

26,5 milljarðar í hernaðaruppbyggingu

102
0
Kafbátaeftirlitsvél bandaríska hersins. Mynd: Vb.is

Áætluð fjárfesting í hernarðaruppbyggingu bandaríska flughersins hér á landi nemur samtals um 204 milljónum dala frá árinu 2018.

Bandaríkjaher hyggur á 94 milljóna dala uppbyggingu innan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, eða sem samsvarar ríflega 12 milljörðum króna, á árunum 2023 til 2025. Fjallað er ítarlega um áformaða uppbyggingu í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir árið 2023 sem var nýverið birt en gengið er út frá því að framkvæmdin verði fullfjármögnuð á næsta ári.

Um er að ræða fimmtu stærstu fjárfestingu flughersins í stöku uppbyggingarverkefni á árinu 2023 á heimsvísu og stærstu fjárfestinguna í stöku verkefni utan Bandaríkjanna.

Í fjárhagsáætlun bandaríska flughersins kemur fram að áður hafi fengist samþykkt 71 milljónar dala fjárfesting í evrópskt fælingarframtak bandaríska hersins, á ensku European Deterrence Initiative (EDI), sem fer í hernaðaruppbyggingu á öryggissvæðinu og að til viðbótar við þá fjárveitingu og 94 milljón dalina sem nú er óskað eftir, sé 39 milljóna dala eldsneytisbirgðastöð á teikniborðinu.

Áætluð fjárfesting í EDI uppbyggingu flughersins hér á landi nemur því samtals um 204 milljónum dala frá árinu 2018, eða um 26,5 milljörðum króna á núverandi gengi. Þá er ótalin fjárfesting NATO og íslenskra stjórnvalda í varnarmannvirkjum.

Flugherstöð í kassa

Í kjölfar hernaðartilburð Rússa við innlimun Krímskagans árið 2014 jók bandaríski flugherinn þjálfun og æfingar í Evrópu og fjárfestingu í hernaðaruppbyggingu í Evrópu til að efla viðbrögð hersins við frekari hernaðarógn í austri.

Herinn hóf að fjárfesta í farandflugstöðvarkerfum, en um er að ræða safn skýla, farartækja, uppbyggingarbúnaðar og annarra tækja sem hægt er að koma fyrir víða um heim og færa hvert þangað sem flugherinn þarf að sinna hernaðaraðgerðum og æfingum. Hefur þetta stundum verið kallað „air base in a box” vestanhafs, sem gæti útlagst á íslensku sem „flugherstöð í kassa”.

Heimild: Vb.is

Previous article09.05.2022 Hverfið mitt 2021-2022 austur – jarðvinna
Next articleOpnun útboðs: Landsvirkjun. Bakkavarnir, umhirða vega og svæða Fljótdalsstöðvar