Home Fréttir Í fréttum Stóraukin velta Húsasmiðjunnar

Stóraukin velta Húsasmiðjunnar

195
0
Mynd: Frettabladid.is

Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, er gestur Jóns G. á Hringbraut í kvöld. Í viðtalinu við Árna kemur fram að Húsasmiðjan jók veltu sína um 20% á síðasta ári og nam velta fyrirtækisins um 24 milljörðum króna miðað við um 20 milljarða árið 2020.

<>

Fyrirtækið er með 14 verslanir úti um allt land, þar af fjórar á höfuðborgarsvæðinu. Nýjasta verslunin – sem opnuð var á Akureyri á dögunum – hefur fengið frábærar viðtökur.

Árni segist bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir lóðaskort í höfuðborginni. „Við höfum bent á lóðaskortinn undanfarin tvö til þrjú ár og heyrum það hjá stærstu viðskiptavinum okkar, verktökunum, að það hefur ekki verið jafnvægi í framboði lóða í borginni.

Þetta skýrir auðvitað að hluta þær hækkanir sem hafa orðið á fasteignamarkaðnum. En við erum bjartsýn; það er mikil þörf á nýjum íbúðum,“ segir Árni.

STAFRÆN TÆKNI MEIRA ÁBERANDI

Húsasmiðjan opnaði nýja verslun á Akureyri á dögunum með ýmsum nýjungum sem tengjast stafrænni tækni.

„Við erum mjög ánægð með viðtökurnar sem þessi nýja verslun okkar hefur fengið. Okkur hefur verið tekið frábærlega. Ég var þarna við opnunina og dagana á undan og það var mjög gaman að sjá móttökurnar.

Við erum með stóran stafrænan vegg sem blasir við viðskiptavinum þegar þeir koma inn – og þar má finna tilboð dagsins og alls kyns upplýsingar sem við viljum koma á framfæri. Inni í versluninni geta viðskiptavinir á nokkrum stöðum nýtt sér starfræna tækni til að fletta upp vörum og fundið ítarlegri upplýsingar um þær.

Þá er hægt að nýta sér Húsasmiðjuappið í þessari verslun eins og öllum öðrum verslunum okkar. Þú þarft ekki lengur að fara á kassann heldur getur skannað vörurnar beint með appinu, sett þær í körfu og borgað beint í símanum.“

8 RAFHLEÐSLUSTÖÐVAR FYRIR UTAN NÝJU HÚSASMIÐJUNA Á AKUREYRI

Settar hafa verið upp 8 rafhleðslustöðvar fyrir utan nýju Húsasmiðjuna á Akureyri. Spurður hvort ferðamenn að sunnan renni ekki bara beint á stæðið til að hlaða, segir Árni að það eigi eftir að koma í ljós. „Það verður spennandi að sjá hvort planið fyllist ekki hjá okkur þegar fótboltamótin verða haldin í sumar – en það er þá líklegt að fólk líti í leiðinni inn í verslunina,“ segir Árni.

Heimild: Frettabladid.is