Home Fréttir Í fréttum Kæra Hafnarfjörð fyrir að taka ekki hæsta boði í lóð

Kæra Hafnarfjörð fyrir að taka ekki hæsta boði í lóð

690
0
Mynd/Stefán Karlsson

Hafnfirska verktakafyrirtækið Nesnúpur hefur kært ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að taka boði Byggingafélags Gylfa og Gunnars í lóðina Ásvelli 3 til innviðaráðuneytisins. Boð Nesnúps var nærri 50 milljónum króna hærra og vill félagið að réttar­áhrifum ákvörðunarinnar verði frestað samstundis.

<>

Lóðin sem stendur við íþróttamiðstöð Hauka var auglýst í desember en þar munu rísa rúmlega 100 íbúðir í allt að fimm hæða fjölbýlishúsum. Tíu verktakar skiluðu inn tilboðum og átti Nesnúpur það hæsta, upp á 1,325 milljarða króna, en tilboðið sem tekið var hljóðaði upp á 1,277 milljarða. Munar þar 48 milljónum króna.

„Þetta er mjög umfangsmikið verkefni og fjárfesting upp á 8 milljarða. Þetta myndi gerbreyta verkefnastöðunni næstu árin,“ segir Flóki Ásgeirsson, lögmaður Nesnúps.

Flóki Ásgeirsson lögmaður. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ákvörðunin var tekin miðvikudaginn 23. mars og tveimur dögum síðar var hún kærð til ráðuneytisins. Hafnarfjarðarbær mun hafa frest fram í miðja næstu viku til að gera grein fyrir sínum rökstuðningi.

Flóki segir viðmótið hafa verið undarlegt. „Bærinn hefur í raun engu svarað enn sem komið er. Það er búið að kalla eftir rökstuðningi en hann er ekki kominn,“ segir hann.

Fréttablaðið óskaði eftir lagalegum rökstuðningi fyrir því að hæsta boði væri ekki tekið en því var ekki svarað. Ívar Bragason, bæjarlögmaður Hafnarfjarðar, segir að Nesnúpur hafi óskað eftir skriflegum rökstuðningi daginn eftir að lóðinni var úthlutað.

Heimild: Frettabladid.is