Home Fréttir Í fréttum Tvö­falt fleiri lóðir næstu fimm árin

Tvö­falt fleiri lóðir næstu fimm árin

111
0
Dagur kynnti áform borgarinnar í Ráðhúsinu í morgun. VÍSIR/VILHELM

Reykja­víkur­borg mun tvö­falda lóða­fram­boð sitt í ár og halda því þannig næstu fimm árin hið minnsta. Borgar­stjóri segir stærsta upp­byggingar­skeið í sögu borgarinnar gengið í garð.

<>

Borgin kynnti þessi á­form á opnum fundi í Ráð­húsinu í morgun.

Gefið verður veru­lega í út­hlutun lóða og mun borgin næstu árin fara úr því að út­hluta lóðum undir þúsund í­búðir á ári í að út­hluta lóðum undir tvö þúsund í­búðir á ári.

Því ætti upp­bygging tíu þúsund nýrra í­búða að hefjast í borginni á næstu fimm árum.

„Við erum auð­vitað að koma út úr ein­hverjum stærsta upp­byggingarfasa í sögu borgarinnar. Þannig að það að við séum að tvö­falda það þýðir ein­fald­lega að öll upp­byggingin sem fólk hefur séð – við eigum von á tvö­falt meiru,“ sagði Dagur B. Eggerts­son borgar­stjóri eftir fundinn.

Borgin búin með sitt

Hann sagði að nú væri boltinn hjá öðrum sem koma að hús­næðis­markaði. Borgin myndi út­hluta nægum lóðum til að anna eftir­spurn á markaði.

„Það verður að­eins fram­þungt og við erum í raun að kalla eftir því að allir, bæði upp­byggingar­aðilar, fjár­mála­stofnanir og aðrir sem komi að þessu kraft­mikla á­taki, geri sitt. Borgin er búin að mörgu leyti með sína heima­vinnu og er núna að leggja út plönin þannig að allir geti komið sam­taka að þessu,“ sagði Dagur.

Mikil upp­bygging er á­ætluð í Skerja­firði en upp­byggingin er nú að færast tals­vert austur og verður mest á Ár­túns­höfða þar sem gert er ráð fyrir um sex þúsund nýjum í­búðum. Einnig er stefnt að mikilli upp­byggingu í Laugar­dalnum.

Vill meiri fyrirsjáanleika

Dagur segir þessi á­form ein og sér ekki leysa stöðuna á hús­næðis­markaðnum.

„Þessar sveiflur á hús­næðis­markaði eru auð­vitað ekki góðar fyrir neinn. Við höfum séð matið tvö­faldast á það hvað þarf að byggja og við erum að svara því fyrir okkar parta. Ég hins vegar kallaði eftir því hér í dag kallaði eftir því að að komi meiri lang­tíma hugsun inn í þetta,“ sagði Dagur.

Það þurfi að liggja fyrir hvar og hve­nær byggja eigi nýjar í­búðir á næstu árum en einnig hvernig í­búðir.

„Þannig að þetta sé ekki svona sveiflu­kennt og markaðurinn þróist úr bara of­fram­boði í skort á bara tveimur árum,“ sagði Dagur.

Heimild: Visir.is