Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar á Háskólatorgi

Framkvæmdir hafnar á Háskólatorgi

163
0
Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Ráðist hefur verið í endurbætur á rýmum Háskóla Íslands sem urðu fyrir tjóni í byrjun síðasta árs, þegar yfir tvö þúsund tonn af vatni fossuðu inn í byggingar skólans.

Ekki hefur verið ráðist í endurbæturnar fyrr en nú vegna biðar á matsskýrslu um tjónið.

<>

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að skólinn hafi fengið afhenda umbeðna matsskýrslu þann 26. janúar síðastliðinn.

„Við fórum yfir skýrsluna og viljum að þetta sé skoðað betur. Þann 4. mars óskuðum við eftir því að tjónið verði endurmetið af dómkvöddum matsmönnum. Þetta er hjá Héraðsdómi Reykjavíkur núna og málið er því ekki afgreitt.“

Jón Atli segir að meintum tjónvöldum hafi verið gerð grein fyrir stöðu mála. Veitur og verkfræðistofuna Mannvit hefur greint á um hvort fyrirtækið beri ábyrgð á tjóninu.

Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna.

Stefna á að hefja kennslu í rýmunum í haust
Jón Atli segir að ákvörðun hafi verið tekin um að hefja framkvæmdir eftir því sem hægt er þrátt fyrir að niðurstaða sé ekki komin í málið.

„Við höfum þegar hafið framkvæmdir á tveimur stofum á Háskólatorgi og eru þær langt komnar.

Við erum að undirbúa frekari framkvæmdir á Háskólatorgi og í Gimli og stefnum að því að geta hafið kennslu í þessum rýmum núna næsta haust.

Hann bætir því við að hluti af framkvæmdunum sé útboðsskylt, eins og niðurrif og uppbygging.

Verið sé að undirbúa útboðsgögn til að hægt verði að bjóða framkvæmdirnar út.

Heimild: Ruv.is