Home Fréttir Í fréttum Rubix að kaupa Verkfærasöluna

Rubix að kaupa Verkfærasöluna

527
0
Verslun Verkfærasölunnar í Síðumúla 9. Aðsend mynd

Rubix Ísland hefur náð samkomulagi um kaup á Verkfærasölunni.

<>

Samrunatilkynning vegna kaupa Rubix Íslands á Verkfærasölunni var skilað til Samkeppniseftirlitsins fyrir rúmum þremur vikum.

Eigandi alls hlutafjár Verkfærasölunnar er Þorlákur Marteinsson en hann gegnir jafnframt stöðu framkvæmdastjóra.

Verkfærasalan, sem var stofnuð árið 1997, starfrækir í dag þrjár verslanir í Síðumúla 9, Dalshrauni 13 og á Tryggvabraut 24 á Akureyri.

Verslunin selur vélar, rafmagnsverkfæri, handverkfæri og fleira frá framleiðendum á borð við Milwaukee.

Fyrirtækið velti nærri 1,4 milljörðum króna árið 2020 sem var um 20% vöxtur frá fyrra ári, samkvæmt síðasta ársreikning sem félagið skilaði inn til fyrirtækjaskrár Skattsins. Meðalfjöldi stöðugilda árið 2020 voru 28 talsins.

Hagnaður Verkfærasölunnar nam 102,5 milljónum árið 2020 samanborið við 77 milljónir árið 2019. Eignir félagsins námu 711 milljónum í árslok 2020 og eigið fé var 368 milljónir.

Rubix á Íslandi er hluti af bresku Rubix-Group samstæðunni sem var stofnuð í september 2017 með samruna IPH-Group og Brammer Group. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Advent International er eigandi Rubix samstæðunnar.

Velta Rubix hér á landi nam 2,6 milljörðum króna árið 2020, samanborið við nærri 2,3 milljarða árið áður. Eignir félagsins námu 1,56 milljörðum í árslok 2020 og eigið fé var 352 milljónir króna.

Samkvæmt heimasíðu Rubix er félagið með tvær starfsstöðvar á Íslandi, eina á Reyðarfirði sem þjónustar starfsemi Alcoa Fjarðaáls með sérsniðna þjónustu á sviði vöruhúsa og aðfanga vegna varahluta og rekstrarvara.

Hin starfsstöðin er í Kópavogi að Dalvegi 32a, þar sem er til húsa verslun, skrifstofa, vöruhús og verkstæði. Á Íslandi starfa í dag um 40 manns hjá Rubix á Íslandi.

Heimild: Vb.is