Framkvæmdir við nýtt fjörutíu húsa hverfi á Húsafelli í Borgarfirði ganga vel að sögn Bergþórs Kristleifssonar. Að jafnaði eru 20-26 starfsmenn sem koma að verkefninu.
Fjórtán hús hafa verið reist og eru fimm nálægt því að verða fokheld. Spurður hvenær megi búast við því að fyrstu eigendur geti flutt í sín hús segist Bergþór ekki geta lofað neinu um það.
„Við getum vonandi afhent hús tilbúin til innréttinga í næsta mánuði en það er erfitt að segja nákvæmlega til um það núna,“ svarar hann og bætir við að bráðlega verði farið að smíða fleiri grindur fyrir þær plötur sem nú eru tilbúnar.
„Svo verður farið að steypa meira um leið og það vorar aðeins. Þetta er allt á fleygiferð,“ segir Bergþór ánægður.
Heimild: Skessuhorn.is