Home Fréttir Í fréttum Fyrsta húsnæðisfrumvarpið lagt fram á Alþingi

Fyrsta húsnæðisfrumvarpið lagt fram á Alþingi

74
0

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um húsnæðissamvinnufélög á Alþingi. Frumvarpið var samþykkt úr ríkisstjórn síðastliðinn föstudag. Frumvarpið er fyrsta frumvarpið af fjórum stórum húsnæðismálafrumvörpum sem ýmist voru lögð fram á síðustu dögum þingsins í sumar eða stóð til að leggja fram en var ekki gert.

<>

Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar, segir í samtali við Kjarnann að enn standi til að öll húsnæðismálafrumvörpin verði lögð fram á þingi fyrir jól. Samt hefur ekkert hinna frumvarpanna verið afgreitt úr ríkisstjórn. Aðeins eru átta þingfundadagar eftir af haustþinginu samkvæmt starfsáætlun þingsins og öll þingmál eiga að hafa verið lögð fram fyrir lok þessa mánaðar, eða næsta mánudag í síðasta lagi. Fyrirséð er að mikill tími þessa daga mun fara í umræður um fjárlagafrumvarpið, eins og alltaf.

Ljóst er þó að starfsáætlun þingsins mun riðlast vegna þess að afgreiðsla fjárlaga verður seinna á ferðinni en áætlað var. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti að hefja aðra umræðu um fjárlögin á morgun, og þriðja umræða átti að hefjast viku seinna, eða þann 3. desember. Nú er orðið ljóst að þetta mun riðlast, þar sem að fjárlaganefnd hóf umfjöllun sína um fjárlögin ekki fyrr en á mánudag. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin afgreiddi ekki sínar tillögur fyrir aðra umræðu fjárlaga fyrr en á föstudagseftirmiðdag.

Þingmenn hafa gagnrýnt skort á þingmálum frá ríkisstjórninni, og eins og fram kom í fréttaskýringu Kjarnans fyrr í vikunni höfðu aldrei verið komin fram eins fá stjórnarfrumvörp á þessari öld og á núverandi haustþingi. Síðan þá hafa tvö stjórnarfrumvörp verið lögð fram.

Vandræði í húsnæðismálum
Eygló hafði talað um það síðastliðinn vetur að húsnæðismálin yrði að klára á því þingi og að jafnvel ætti að halda sumarþing til þess að klára þau. Jafnvel þótt þingið hafi starfað langt fram á sumar komust málin, sem hún náði að leggja fram, ekki úr nefnd.

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar voru boðuð fjögur frumvörp um húsnæðismál á liðnum vetri. Það voru frumvarp til laga um húsnæðisbætur, um húsnæðissamvinnufélög, um breytingu á húsaleigulögum og um húsnæðismál, en hið síðastnefnda fjallar um stofnstyrki til félagslegs leiguhúsnæðis. Öll frumvörpin voru boðuð aftur í þingmálaskrá þessa árs.

Eygló og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra deildu opinberlega vegna sumra af frumvörpunum, sem fjármálaráðuneytið gagnrýndi harðlega í umsögnum sínum.

Þann 28. maí kynnti ríkisstjórnin svo sínar aðgerðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þar á meðal var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál. Þar var meðal annars að finna loforð um stofnstyrki til uppbyggingar félagslegs leiguíbúðakerfis og nýtt húsnæðisbótakerfi. Í yfirlýsingunni kemur fram að frumvarpið um húsnæðisbætur ætti að að koma fyrir vorþing í ár og önnur frumvörp á haustþingi, þau ætti að afgreiða fyrir áramót.

Heimild: Kjarninn.is