Home Fréttir Í fréttum Það kostar 200 til 260 milljarða króna að tvöfalda Hringveginn um Ísland

Það kostar 200 til 260 milljarða króna að tvöfalda Hringveginn um Ísland

105
0

Það kostar 200 til 260 milljarða króna að tvöfalda Hringveginn um Ísland. Ef lagður yrði svokallaður 2+1 vegur, þar sem tvær akgreinar liggja í aðra áttina en ein í hina, myndi kostnaðurinn vera 130 til 170 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, sitjandi þingmanns Samfylkingarinnar, sem birt hefur verið á vef Alþingis.

<>

Í svarinu er sérstaklega tekið fram að það sé fyrst og síðast rökstudd ágískun. „Frekari nákvæmni kallar á tímafreka og mjög kostnaðarsama gerð á frumdrögum verks en þau hefðu lítið hagnýtt gildi eins og sjá má af umfjölluninni hér að framan. Þær tölur sem settar eru fram hér verður að skoða sem lágmarkstölur, t.d. er ekki horft sérstaklega til margra einbreiðra brúa á leiðinni sem alfarið þyrfti að endurgera og þá oftast í tvöfaldri breidd”.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, sagði í viðtali við Helgarútgáfuna á Rás 2 í byrjun október að það þyrfti viðhorfsbreytingu hjá stjórnvöldum gagnvart ferðaþjónustu og uppbyggingu innviða til að koma til móts við fjölgun ferðamanna. Þeir verða líklega um 1,3 milljónir á þessu ári, en náðu ekki milljón í fyrra og voru hálf milljón árið 2008. Vöxturinn á skömmum tíma hefur því verið gríðarlegur og allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi örum vexti í nánustu framtíð.

Heimild: Kjarninn.is