Home Fréttir Í fréttum Ljósleiðari plægður undir Þjórsá

Ljósleiðari plægður undir Þjórsá

207
0
Ljósleiðarinn er plægður meðfram vegum, þar sem hægt er

Ljós­leiðar­inn ehf. und­ir­býr lagn­ingu ljós­leiðara­strengs frá Þor­láks­höfn og út á Land­eyjasand. Með henni munu teng­ing­ar sæ­strengja Farice, það er að segja Danice sem kem­ur á land á Land­eyjasandi og Íris sem koma mun á land í Þor­láks­höfn, styrkj­ast. Plægja á streng­inn und­ir Þjórsá og Hólsá.

<>

Ljós­leiðar­inn ehf. (áður Gagna­veita Reykja­vík­ur) hef­ur óskað mats Skipu­lags­stofn­un­ar á því hvort lagn­ing ljós­leiðara­strengs­ins um árn­ar þurfi að fara í gegn­um fullt um­hverf­is­mat. Raun­ar tel­ur fyr­ir­tækið, eins og skipu­lags­yf­ir­völd, að um­hverf­isáhrif séu lít­il

Aukið ör­yggi
Fram­kvæmd­in er liður í út­breiðslu ljós­leiðara­nets Ljós­leiðarans ehf. um Suður­nes og Suður­land. Erl­ing Freyr Guðmunds­son fram­kvæmda­stjóri seg­ir að lagt sé rör sem get­ur rúmað 1.000 ljós­leiðaraþræði. Hann seg­ir mik­il­vægt að hugsa til framtíðar og hafa frek­ar stærri strengi en minni.

Til sam­an­b­urðar má geta þess að átta þræðir eru í NATO-ljós­leiðar­an­um sem lagður var um landið á sín­um tíma. „Mik­il­vægt er að hugsa langt fram í tím­ann og bjóða öll­um sem vilja að vera með. Það þýðir að neyt­end­ur ættu að fá ódýr­ari þjón­ustu í framtíðinni og aukið ör­yggi,“ seg­ir Erl­ing.

Lág­marks­áhrif á líf­ríki
Hann seg­ir að nokkr­ir viðskipta­vin­ir standi að fram­kvæmd­inni með Ljós­leiðar­an­um, þar á meðal Farice. Þá muni fjar­skipta­sam­band á Suður­landi styrkj­ast, allt frá Þor­láks­höfn til Hvolsvall­ar. Stækk­un ljós­leiðara­nets­ins verði til að fækka þeim heim­il­um í land­inu sem ekki hafa aðgang að ljós­leiðara­sam­bandi.

Leggja á streng­inn til Land­eyja í ár. Hann verður að mestu lagður meðfram veg­um og um Ölfusár­brú. Hins veg­ar verður streng­ur­inn plægður und­ir Þjórsá, um þriggja kíló­metra leið, og Hólsá í Þykkvabæ, um hálf­an kíló­metra. Hann verður plægður niður á um eins metra dýpi með jarðýtu og fer grafa á eft­ir til þess að þjappa jarðveg og loka plógs­ári.

Fyr­ir­hugað er að þvera árn­ar þegar rennsli er lítið og áhrif fram­kvæmd­ar­inn­ar á líf­ríki í lág­marki. Gert er ráð fyr­ir að það taki aðeins einn dag að plægja streng yfir hvort vatns­fallið fyr­ir sig.

Heimild: Mbl.is