Ljósleiðarinn ehf. undirbýr lagningu ljósleiðarastrengs frá Þorlákshöfn og út á Landeyjasand. Með henni munu tengingar sæstrengja Farice, það er að segja Danice sem kemur á land á Landeyjasandi og Íris sem koma mun á land í Þorlákshöfn, styrkjast. Plægja á strenginn undir Þjórsá og Hólsá.
Ljósleiðarinn ehf. (áður Gagnaveita Reykjavíkur) hefur óskað mats Skipulagsstofnunar á því hvort lagning ljósleiðarastrengsins um árnar þurfi að fara í gegnum fullt umhverfismat. Raunar telur fyrirtækið, eins og skipulagsyfirvöld, að umhverfisáhrif séu lítil
Aukið öryggi
Framkvæmdin er liður í útbreiðslu ljósleiðaranets Ljósleiðarans ehf. um Suðurnes og Suðurland. Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri segir að lagt sé rör sem getur rúmað 1.000 ljósleiðaraþræði. Hann segir mikilvægt að hugsa til framtíðar og hafa frekar stærri strengi en minni.
Til samanburðar má geta þess að átta þræðir eru í NATO-ljósleiðaranum sem lagður var um landið á sínum tíma. „Mikilvægt er að hugsa langt fram í tímann og bjóða öllum sem vilja að vera með. Það þýðir að neytendur ættu að fá ódýrari þjónustu í framtíðinni og aukið öryggi,“ segir Erling.
Lágmarksáhrif á lífríki
Hann segir að nokkrir viðskiptavinir standi að framkvæmdinni með Ljósleiðaranum, þar á meðal Farice. Þá muni fjarskiptasamband á Suðurlandi styrkjast, allt frá Þorlákshöfn til Hvolsvallar. Stækkun ljósleiðaranetsins verði til að fækka þeim heimilum í landinu sem ekki hafa aðgang að ljósleiðarasambandi.
Leggja á strenginn til Landeyja í ár. Hann verður að mestu lagður meðfram vegum og um Ölfusárbrú. Hins vegar verður strengurinn plægður undir Þjórsá, um þriggja kílómetra leið, og Hólsá í Þykkvabæ, um hálfan kílómetra. Hann verður plægður niður á um eins metra dýpi með jarðýtu og fer grafa á eftir til þess að þjappa jarðveg og loka plógsári.
Fyrirhugað er að þvera árnar þegar rennsli er lítið og áhrif framkvæmdarinnar á lífríki í lágmarki. Gert er ráð fyrir að það taki aðeins einn dag að plægja streng yfir hvort vatnsfallið fyrir sig.
Heimild: Mbl.is