Home Fréttir Í fréttum Ný Ölfusárbrú tekin í notkun 2025

Ný Ölfusárbrú tekin í notkun 2025

1067
0
Nýja brúin á Ölfusá verðu 330 m löng stagbrú með turni á Efri-Laugardælaeyju. Mynd/Vegagerðin

Stefnt er að því að ný brú yfir Ölfusá verði tekin í notkun árið 2025. Að loknu forvali er reiknað með að útboðsgögn verði send út í haust og að tilboð í verkið verði opnuð í febrúar á næsta ári.

<>

Þetta kom fram á opnum kynningarfundi sem Vegagerðin hélt á Hótel Selfossi í gær.

Áralöng vinna að baki
„Okkur finnst gott að geta hafið þetta ferli með kynningarfundi. Þegar svona verkefni fer af stað þá er áralöng vinna að baki, sem nær áratugi aftur í tímann. Það er gott að geta farið yfir það á svona fundi og fengið mikilvægar ábendingar frá sveitarstjórnarfólki á svæðinu,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, á fundinum.

Með nýju brúnni mun hringvegurinn styttast um 1,2 kílómetra og ferðatíminn um Selfoss mun styttast um 4-5 mínútur. Áætlað er að 4.000 til 5.000 ökutæki muni fara daglega um brúna þegar hún opnar árið 2025.

Veggjald yfir 2+1 brú
Meðal þess sem fram kom á fundinum í máli Guðmundar Vals Guðmundssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá Vegagerðinni, er að stefnt sé að því að umferð þyngri ökutækja verði ekki leyfð á núverandi brú við Tryggvatorg og að gert sér ráð fyrir gjaldtöku yfir nýju brúna. Ekki væri hægt að segja í dag hvert gjaldið yrði en nefndar hafa verið tölur á borð við 400 krónur ferðin.

Suðurlandsvegur um Ölfusá verður 2+1 vegur, þannig að tvær akreinar verða til vesturs og ein til austurs. Reiknað er með að 2+1 anni umferðinni um brúna til langrar framtíðar. Gert er ráð fyrir akrein fyrir göngu- og hjólafólk en hægt verður að breyta brúnni síðar með því að setja göngu- og hjólastíg utan á brúna og brúin yrði þá tvær akreinar í báðar áttir.

Sveitarfélögin vilja mislæg gatnamót
Fram kom á fundinum að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort mislæg gatnamót eða hringtorg verði vestan við brúna, en kostnaður við mislæg gatnamót er umtalsvert meiri. Enn á eftir að ljúka skipulagsbreytingum hjá Sveitarfélaginu Árborg og semja við landeigendur, meðal annars eigendur Efri-Laugardælaeyju, þar sem turn brúarinnar verður byggður.

Fulltrúar Árborgar og Flóahrepps, Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri og Árni Eiríksson oddviti, tóku til máls á fundinum og brýndu fyrir sendinefnd Vegagerðarinnar að samhliða brúarsmíðinni verði ráðist í gerð mislægra gatnamóta, frekar en hringtorgs, í stað þess að byggja hringtorg og taka frá landsvæði undir mislæg gatnamót upp á seinni tíð. Það myndi auðvelda skipulag og uppbyggingu við nýja brúarsporðinn.

Heimild: Sunnlenska.is