Home Fréttir Í fréttum Tekur ríkissjóður við rekstri Vaðlaheiðarganga?

Tekur ríkissjóður við rekstri Vaðlaheiðarganga?

121
0
Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga segir að unnið sé að endurfjármögnun ganganna enda ljóst að reksturinn stendur ekki undir þeim áætlunum sem lánveiting byggði á.

Gátu ekki greitt af láninu

Greið leið ehf, sem er í eigu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, á stærstan hluta Vaðlaheiðarganga eða sextíu og sex prósenta hlut á móti þrjátíu og þriggja prósenta hlut ríkissjóðs. Félagið fékk lán úr ríkissjóði til byggingar Vaðlaheiðarganga sem stóð í 18,5 milljörðum um áramót.

<>

Lánin voru á gjalddaga í maí á síðasta ári og gat félagið á þeim tímapunkti ekki greitt af láninu. Rekstur Vaðlaheiðarganga hefur ekki staðið undir þeim áætlunum sem lánveitingin byggði á bæði vegna þess að framkvæmdin tók mun lengri tíma en ætlað var og eins hefur gjaldtaka skilað minna en áætlanir gerðu ráð fyrir, meðal annars vegna faraldursins.

Unnið að endurfjármögnun

Í fréttum Vísis kemur fram að samkvæmt heimildum þeirra sé ríkissjóður nálægt því að taka yfir megnið af Vaðlaheiðargöngum. Þar segir að lánum ríkissjóðs verði að miklu eða öllu leyti skuldbreytt í hlutafé þannig að ríkið verði eigandi að líkast til um 90 prósenta hlut.

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf. baðst undan viðtali við fréttastofu en sagðist geta staðfest að unnið væri að endurfjármögnun félagsins. Hann segir að það skýrist fljótlega hvernig hún fari fram, í síðasta lagi á aðalfundi félagsins sem verður í vor.

Heimild: Ruv.is