Home Fréttir Í fréttum Lykilstjórnendur leggja Bláa lóninu til hlutafé vegna stækkun baðlónsins

Lykilstjórnendur leggja Bláa lóninu til hlutafé vegna stækkun baðlónsins

203
0
Bláa lónið. teikning af svæðinu

Einkahlutafélagið Keila ehf. eignaðist í vor tæplega tíu prósenta hlut í Bláa lóninu í kjölfar hlutafjáraukningar. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir að lykilstjórnendur Bláa lónsins standi að hlutafjáraukningunni. Kaupverðið sé trúnaðarmál en hafi byggst á verðmati frá óháðu verðbréfafyrirtæki.

<>

Grímur segir tilgang hlutafjáraukningarinnar vera að draga úr áhættu félagsins af sex milljarða framkvæmdum sem Bláa lónið stendur nú í. „Í ljósi þeirra skuldbindinga sem félagið er að gangast undir með þessum miklu framkvæmdum var ákveðið að styrkja eiginfjárstöðuna til að minnka áhættu félagsins af framkvæmdaóvissu og einhverjum áföllum sem geta komið upp í framkvæmdunum,“ segir Grímur.

Unnið er að byggingu fyrsta fimm stjörnu hótels landsins sem stefnt er að að verði opnað vorið 2017. Hótelið verður 7.500 fermetrar með 74 herbergjum. Þá er unnið að helmings stækkun baðlónsins sem á að opna í janúar næstkomandi. Auk þess er verið að byggja nýja heilsulind og veitingasvæði milli baðlónsins og hótelsins.

Engin starfsemi var í Keilu um síðustu áramót sem þá hét LBF I GP ehf. Þá var félagið í eigu Kólfs ehf. sem er að meirihluta í eigu Gríms og Drangar Fund, sjóðs í rekstri Landsbréfa.

Í vor var nýtt hlutafé að nafnvirði einn milljarður lagt í félagið samkvæmt því sem kemur fram í gögnum frá fyrirtækjaskrá. Í stjórn Keilu sitja Grímur, Stein­ar Helga­son, sjóðsstjóri Landsbréfa, og Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi og varamaður í stjórn Bláa lónsins.

Bláa lónið hagnaðist um 1,6 milljarða á síðasta ári. Þar af voru greiddir 1,2 milljarðar króna í arð. Árið 2013 nam hagnaðurinn 1,4 milljörðum króna og þar af var greidd 931 milljón króna í arð.

Stærstu hlutahafar Bláa lónsins eru HS Orka, Hvatning, sem er í eigu Horns II, sem Landsbréf rekur, og Kólfs, sem er að meirihluta í eigu Gríms.

Heimild: Visir.is