Home Fréttir Í fréttum Allt að 238 milljarða ábati af Sundabraut

Allt að 238 milljarða ábati af Sundabraut

110
0
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. Aðsend mynd

Áætlað er að lagning Sundabrautar muni skila 186-238 milljarða króna ábata fyrir samfélagið.

<>

Lagning Sundabrautar mun skila á bilinu 186-238 milljarða króna ábata fyrir samfélagið, en ábatinn fer m.a. eftir hvort valin verði Sundabrú eða Sundagöng.

Þetta eru niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar Mannvits og danska ráðgjafafyrirtækisins Cowi um lagningu Sundabrautar ásamt skilagrein starfshóps Vegagerðarinnar.

Mestur ábati er sagður felast í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttri leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu gæti minnkað um 150 þúsund km. á hverjum sólarhring við opnun Sundabrautar.

„Þessar niðurstöður staðfesta þá sannfæringu mína að Sundabraut mun hafa gríðarlega þýðingu fyrir samgöngur og mun umbylta umferðinni á höfuðborgarsvæðinu. Sundabraut mun dreifa álagi, leysa umferðarhnúta og styrkja öryggisleiðir. Sundabrautin mun auk þess stytta vegalengdir fyrir alla þá sem ferðast innan og til og frá höfuðborgarsvæðinu – óháð ferðamáta. Með þessa greiningu í farteskinu getum við nú brett upp ermar og hafist handa við að undirbúa framkvæmdir sem hafist geti innan fárra ára,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Áætlað er að framkvæmdir við Sundabraut geti hafist árið 2026 og að Sundabraut frá Sæbraut að Kjalarnesi verði lokið árið 2031. Í tilkynningu innviðaráðuneytisins segir að næstu skref séu nú að hefja undirbúning á umhverfismati, víðtæku samráðsferli og nauðsynlegum breytingum á aðalskipulagi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:

„Með samkomulagi Reykjavíkurborgar og samgönguráðherra sl. sumar komst Sundabrautarmálið í traustan og góðan farveg. Félagshagfræðileg greiningin sem nú liggur fyrir er mikilvægur áfangi en segja má að samkvæmt henni sé minni munur en á þeim kostum sem hafa verið til skoðunar, Sundabraut á brú og Sundabraut í göngum. Í samræmi við samkomulagið eru næstu skref þau að vinna ítarlegt umhverfismat þar sem þessir báðir þessir kostir verða bornir saman við núll-kost. Umhverfismatið og samráð við íbúa og hagsmunaaðila beggja vegna Kleppsvíkur verður lykilatriði við endanlegt leiðarval. Við útfærslu beggja leiða verða allir umhverfisþættir og mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa af umferð fyrir nærliggjandi hverfi sérstaklega skoðað. Þá liggur einnig fyrir að hagmunir almenningssamgangna, gangandi og hjólandi verða teknir inn í myndina ásamt hafnarstarfsemi.

Sundabrú talin hagkvæmari

Sundabrú er talinn hagkvæmari kostur en Sundagögng samkvæmt skýrslu starfshóps, með fulltrúum Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Faxaflóahafna og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem birt var fyrir rúmu ári síðan.

„Vóg þar þyngst að kostnaður við brúarleið er lægri auk þess sem brú hentar betur fyrir alla ferðamáta og almenningssamgöngur. Þá myndi ný Sundabraut á brú bæta samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins og til og frá borginni með því að dreifa umferð, minnka álag á öðrum stofnvegum og stytta ferðatíma,“ segir í tilkynningu innviðaráðuneytisins.

Í júlí síðastliðnum undrrituðu ríkið og Reykjavíkurborg yfirlýsingu um að Sundabraut yrði lögð alla leið á Kjalarnes í einni framkvæmd.

Gert er ráð fyrir að fjármagna framkvæmdir við Sundabraut með gjaldtöku af umferð, sem hefjist þegar Sundabraut er tekin í notkun og ljúki innan 30 ára.

Teikning með mögulegum útfærslum á Sundabrautinni. Sundabrúin kæmi þar sem appelsínugula línan liggur en Sundagöngin á bláu línunni.

Heimild: Vb.is