Home Fréttir Í fréttum Strompurinn fauk af Ráð­herra­bú­staðnum

Strompurinn fauk af Ráð­herra­bú­staðnum

213
0
Stefán Bjartur Runólfsson starfar rétt hjá Ráðherrabústaðnum og varð vitni að atvikinu. Samsett mynd/Stefán Bjartur Runólfsson

Veðrið hefur látið finna fyrir sér í dag og eru appelsínugular viðvaranir víðsvegar um landið, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.

<>

Ráðherrabústaðurinn á Tjarnargötu fékk að finna fyrir vindinum en strompur hússins fauk fyrr í dag. Stefán Bjartur Runólfsson, starfsmaður á leikskólanum Tjarnarborg, varð var við fok strompsins og tók meðfylgjandi myndir.

Eins og sjá má á myndunum þurfti aðstoð við að koma strompnum niður af þaki hússins svo hann færi ekki í frekara ferðalag. Stefán Bjartur segir að aðgerðum við ráðherrabústaðinn sé nú lokið.

Hátt í 50 útköll björgunarsveita

Stompur Ráðherrabústaðarins er ekki það eina sem hefur fokið í dag en hátt í fimmtíu útköll hafa borist björgunarsveitum það sem af er degi samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Tíu tilkynningar hafa borist á höfuðborgarsvæðinu segir Davíð Már og bætir við, „það er svolítið áhugavert – við erum að sjá mikið af verkefnum sem tengjast þakplötum og þakklæðningum, þakköntum og þess háttar.“

Davíð Már segir ekkert óvenjulegt við að slíkar tilkynningar berist á dögum sem þessum, hins vegar séu tilfellin afgerandi mörg í dag. Hann segir það ríma við orð veðurfræðinga um að vindáttin væri óvenjuleg.

„Það getur verið að vindurinn komi svolítið öðruvísi á húsin og nái að eiga við eitthvað sem hann hefur ekki snert núna í einhvern tíma,“ segir Davíð Már.

Kalla þurft út aðstoð til að fjarlægja strompinn svo hann færi ekki í frekar ferðalag. Mynd/Stefán Bjartur Runólfsson

100 manns svarað útkalli

Davíð Már segir öll útköll fyrir hádegi hafi verið tengd þökum og eftir að tilkynningar fóru að aukast eftir hádegi hafi einnig þessi klassísku óveðursútköll farið að berast líkt og fok á lausamunum, svalahurðum, þakgluggum sem hafa fokið upp, grill sem fjúka, „og meira að segja trampólín sem hafa ekki náð að fjúka hingað til.“

Að sögn Davíðs Más hafa rétt rúmlega 100 björgunarsveitarfólk svarað útkalli í dag, frá því að fyrsta útkallið kom á ellefta tímanum í morgun.

Miðað við veðurviðvaranir dagsins segist Davíð Már gera ráð fyrir áframhaldandi útköllum.

Stompurinn fauk eins og sjá má. Mynd/Stefán Bjartur Runólfsson

Heimild: Frettabladid.is