Home Fréttir Í fréttum Risaframkvæmdir í Kaupmannahöfn mæta andstöðu

Risaframkvæmdir í Kaupmannahöfn mæta andstöðu

228
0
Mynd: Samgönguráðuneyti Danmerkur / Samgönguráðuneyti Danmerkur
Táknræn skóflustunga sem átti að vera upplagt ljósmyndatækifæri fyrir nýjan borgarstjóra Kaupmannahafnar snerist upp í andhverfu sína þegar hópur mótmælenda reyndi að varna því að borgarstjórinn gæti mundað skófluna.

Mótmælendur létu ekki segjast og þurfti lögregla á endanum að flytja þá með valdi svo að borgarstjórinn gæti, heldur vandræðaleg, stungið skóflunni niður.

<>

Mótmælin eru til marks um hve umdeild framkvæmdin er. Háleitar hugmyndir eru uppi um stærðarinnar landfyllingu sem nefnist Lynetteholm og á að koma fyrir í Eyrarsundi milli hverfanna Refshaleøen og Norðurhöfn, svo að segja í beinni sjónlínu frá Löngulínu þar sem Litlu hafmeyjuna er að finna. Framkvæmdin hefur verið sögð sú stærsta í Kaupmannahöfn frá því Kristján IV. lét byggja Kristjánshöfn á fyrri hluta 17. aldar.

Eyjan á að vera að fullu byggð árið 2070 og eiga íbúar þá að verða um 35 þúsund. Markmiðið ku vera að bregðast við íbúðaskorti í Kaupmannahöfn en auk þess á eyjan að veita borginni vörn gegn sjávarföllum og veitir ekki af með fyrirséðri hækkun á yfirborði sjávar.

Mynd: By & Havn
Svona sjá arkitektar fyrir sér að verði umhorfs við Lynetteholm.

Óttast að reikningurinn lendi á skattgreiðendum

Himinhár kostnaðurinn er meðal þess sem situr í mörgum Kaupmannahafnarbúanum. Kostnaður við landfyllinguna er metinn af yfirvöldum á um 20 milljarða danskra króna, um 400 milljarða íslenskra, en inni í því er aðeins kostnaður við landfyllinguna, lestarsamgöngur og vegi.

Opinbert hlutafélag mun sjá um framkvæmdina og síðar selja byggingarréttinn á eyjunni. Með því á að fjármagna innviðauppbyggu ekki aðeins á Lynetteholm sjálfum heldur annars staðar í borginni, til að mynda lagningu nýrrar jarðlestarlínu sem kemur við á eynni.

Margir hafa efasemdir um að áætlanirnar standist, og geri þær það ekki er næsta víst að reikningurinn lendi á skattgreiðendum.

Vöruflutningalestir í gegnum borgina

Raskið sem fylgja mun framkvæmdunum er ekki síður umdeilt. Landfyllingin á að vera 2,5 ferkílómetrar að stærð eða litlu stærra en sveitarfélagið Seltjarnarnes. Um 40 milljón rúmmetra af jarðvegi þarf til verksins, eða um 2,5 milljónir drekkhlaðna vörubíla – sem allir þurfa að keyra í gegnum Kaupmannahöfn. Þannig reiknast mönnum til að á í tíu tíma á sólarhring í heil þrjátíu ár þurfi meira en einn vörubíll á mínútu að keyra gegnum borgina.

Þá eru umhverfisáhrifin ótalin. Dönsk náttúruverndarsamtök hafa stefnt danska ríkinu fyrir að hafa ekki farið í fullnægjandi umhverfismat á áhrifum framkvæmdarinnar.

Landfyllingin hefur verið á áætlun frá árinu 2018 þegar danska þingið veitti framkvæmdinni blessun sína.

Hún nýtur nokkuð breiðs stuðnings í danskri pólitík, hjá jafnaðarmönnum og Venstre – stærsta hægriflokki landsins – auk fleiri flokka, en ekki allra. Vinstriflokkurinn Einingarlistinn er sá flokkur sem hefur verið einarðastur í andstöðu sinni við áformin.

Í borgarstjórnarkosningum í Kaupmannahöfn í vor urðu þau sögulegu tíðindi að jafnaðarmenn urðu í fyrsta sinn ekki stærstir í kosningunum. Jafnaðarmannaflokkurinn tapaði um tíu prósentustigum milli kosninga á sama tíma og Einingarlistinn bætti við sig og varð stærsti flokkurinn.

Mynd: By og havn
Rauðu línurnar sýna hvar umferð vörubílanna verður mest. Þær grænu sýna hvar umferð verður minni en við aðra stóra framkvæmd, Norðurhöfn.

Heimild: Ruv.is