Hafinn er undirbúningur að sölu fasteigna Landsbankans við Hafnarstræti en reiknað er með að bankinn flytji í nýjar höfuðstöðvar í Austurhöfn við Reykjavíkurhöfn í árslok.
Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Rúnari Pálmasyni upplýsingafulltrúa bankans.
Landsbankinn er nú með starfsemi í 12 húsum í miðborginni og á fjögur þeirra (Hafnarstræti 10, 12 og 14 og Austurstræti 11).
Bankinn mun við flutningana í árslok hætta notkun þessara húsa.
Leigusamningar vegna átta húsa renna flestir út á þessu ári. Húsin við Hafnarstræti eru samtals um 3.000 fermetrar að stærð.
Sögulegt hús og friðað
Rúnar segir að sérstaklega verði hugað að framtíð Austurstrætis 11 (Landsbankahússins) enda hafi húsið menningarlegt og sögulegt gildi og sé friðað. „Við munum leita leiða til að húsið fái notið sín til framtíðar,“ segir Rúnar.
Framkvæmdir við nýbyggingu Landsbankans í Austurhöfn ganga vel og eru að mestu leyti í samræmi við áætlanir, upplýsir Rúnar. Nú er gert ráð fyrir að bankinn flytji í húsið í lok árs 2022, um hálfu ári seinna en upphaflegar áætlanir frá 2018 gerðu ráð fyrir.
Árið 2020 var áætlað að húsið myndi kosta um 11,8 milljarða króna. Ofan á þá fjárhæð bætast breytingar á byggingarvísitölu en áhrif vegna Covid-19 hafa leitt til þess að ýmis byggingarefni hafa hækkað í verði.
„Ótímabært að fjalla um áætlun um endanlegan kostnað því við erum enn að semja um ýmsa þætti sem geta haft áhrif til hækkunar eða lækkunar,“ segir Rúnar.
Heimild: Mbl,is