Alvotech greiðir félögum í eigu fjárfestingafélags Róberts Wessman tæplega tvo milljarða á ári í húsaleigu.
Alvotech greiðir 14,2 milljónir dollara á ári, eða tæplega 1,9 milljarða króna, í húsaleigu til félaga í eigu Aztiq, stærsta hluthafa Alvotech samkvæmt skráningarlýsingu Alvotech sem birt var í desember.
Aztiq er í meirihlutaeigu Róberts Wessman. Alvotech greiðir Fasteignafélaginu Sæmundi 7,7 milljónir dollar, um einn milljarða á ári fyrir leigu á tæplega 13.000 fermetra höfuðstöðvum Alvotech við Sæmundargötu 15-19 í Vatnsmýrinni.
Þá greiðir Alvotech 4,1 milljón dollara, um hálfan milljarð króna á ári fyrir leigu á 13.500 fermetra viðbyggingu í Vatnsmýrinni af Fasteignafélaginu Eyjólfi.
Alvotech leigir auk þess húsnæði við Lambhagaveg og íbúðir ætlaðar starfsmönnum af félögum í eigu Aztiq.
Á vef Aztiq segir að upphaflega hafi staðið til að Alvotech byggði húsið en hagstæðara þótti að leigja eignina fremur af Aztiq.
„Upphaflega stóð til að Alvotech myndi reisa húsið en á þeim tíma var mikið frost á markaði og Alvotech því ekki tilbúið til að leggja í svo stóra fjárfestingu og vildi fremur einbeita sér að því að fjármagna þróun líftæknilyfja.
Það var því hagstæðara fyrir Alvotech að gera langtíma leigusamning um eignina frekar en að binda eigið fé til byggingar á húsinu og var ákvörðunin tekin sameiginlega af hluthöfum Alvogen og Alvotech.
Aztiq stofnaði því Sæmund hf. og fjármagnaði byggingu höfuðstöðvanna meðal annars með lánum frá Arion banka.
Framkvæmdir hófust 2013 á lóð í eigu Vísindagarða Háskóla Íslands en Sæmundur tók yfir lóðaleigusamninginn sem Alvogen hafði gert við Vísindagarða.
Fyrirtækið greiðir í dag um 500 krónur í lóðaleigu á hvern fermetra,“ segir á vef Aztiq.
Til stendur að skrá Alvotech í Nasdaq kauphöllina í New York og á First North markaðinn á Íslandi í gegnum svonefndan SPAC-samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II í Bandaríkjunum.
Heimild: Vb.is