Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í hugmyndir fasteignafélagsins Reita um byggingu íbúðarhúsa á lóðinni Suðurlandsbraut 56.
Á lóðinni stendur nú veitingahúsið Metró, sem myndi víkja fyrir íbúðabyggð ef áformin ná fram að ganga.
Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu 18. nóvember sl. hefur lóðarhafinn, Reitir, látið vinna tillögu að uppbyggingu á lóðinni í samstarfi við Trípólí arkitekta. Þetta sé vannýtt lóð á frábærum stað í borginni með mikla þróunarmöguleika.
Íbúðir verði 87 talsins
Um er að ræða tillögu að samgöngumiðuðu skipulagi sem fléttar nýbyggingu og almenningsrými saman við fyrirhugaðar breytingar á Suðurlandsbraut.
Tillagan geri ráð fyrir samspili og tengingu við biðstöð borgarlínu og að hringtorg við gatnamót Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs verði aflagt ásamt aðrein frá hringtorgi inn í Skeifuna. Gert sé ráð fyrir torgrými, borgargarði og 87 íbúðum í tveimur samtengdum 5-7 hæða byggingum auk 1.300 fm af verslunar- og þjónusturými.
Stærð íbúðanna verður á bilinu 45-135 fermetrar. Markmið tillögunnar sé að búa til kennileiti, aðdráttarafl og mikilvægan tengipunkt fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eiga leið í Skeifuna.
Fram kemur í greinargerð verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa að í gildandi deiliskipulagi fyrir Skeifuna sé ekki reiknað með neinum breytingum á lóðinni. Rammaskipulag fyrir Skeifuna miði hins vegar að breyttri þróun á svæðinu.
Þar er miðað við breytta uppbyggingu á lóðinni/reitnum, m.a. með 187 íbúðum og tæplega 35.000 fermetra byggingarmagni á lóðunum Suðurlandsbraut 46-56 og Fákafeni 9-11.
Heimild: Mbl.is