Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samningar loks náðst um lang­þráða við­byggingu við flug­stöðina

Samningar loks náðst um lang­þráða við­byggingu við flug­stöðina

308
0
Stefnt er að því að ljúka verkefninu síðsumars árið 2023.

Isavia hefur samið við byggingafélagið Hyrnu á Akureyri um viðbætur og breytingar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við fréttastofu en samningurinn verður undirritaður í flugstöðinni á morgun.

<>

Verkefnið felur í sér viðbyggingu við núverandi flugstöð og breytingu á núverandi húsnæði flugstöðvarinnar og nánasta umhverfi. Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni var tekin í júní síðastliðnum. Akureyri.net greindi fyrst frá samkomulaginu.

Tvö fyrirtæki lögðu inn tilboð í verkið, Húsheild í Mývatnssveit og Hyrna. Tilboð Húsheildar hljóðaði upp á tæpar 865 milljónir króna en tilboð Hyrnu upp á rúmar 810 milljónir króna. Húsdeild hefur síðar keypt Hyrnu og tekið yfir rekstur byggingafélagsins.

Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Sigrún Björn Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Myndin er tekin í tilefni af fyrstu skólfustungu verksins í júní síðastliðnum.
ISAVIA
1.100 fermetra viðbygging

Þetta var í annað sinn sem verkið var boðið út. Einungis eitt tilboð upp á 910 milljónir króna barst í fyrra skiptið en það var sömuleiðis frá Húsdeild. Isavia hafnaði tilboði á þeim grundvelli að það væri hærra en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Var þá ákveðið að bjóða verkið út á ný.

Heimamenn hafa lengi kallað eftir því að aðstaðan verði bætt á Akureyrarflugvelli svo taka megi við fleiri farþegum í einu. Dæmi eru um það að farþegar sem koma til Akureyri um flugvöllinn frá útlöndum hafi þurft að bíða í strætisvögnum á flughlaðinu, þar sem ekki var pláss fyrir alla að bíða í biðröð í flugstöðinni eftir því að komast í öryggisleit.

Til stendur að reisa 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina með góðri aðstöðu fyrir toll og lögreglu, fríhöfn og veitingastað. Áætlað er að heildarverkefninu verið lokið síðsumars 2023.

Heimild: Visir.is