Eik auglýsir nú til útleigu atvinnuhúsnæði í Skeifunni 7 og 9 til skemmri tíma en bæði húsin munu líklega víkja á næstu árum.
Skammt frá hafa risið 50 íbúðir á Grensásvegi 1 en þar verða um 200 íbúðir og atvinnuhúsnæði. Miðað við stærð lóða gætu álíka margar íbúðir risið í Skeifunni 7 og 9.
Elko er með verslun í Skeifunni 7 en hyggst flytja sig um set í Skeifuna 19, í Mylluhúsið, ásamt Krónunni, að sögn Gests Hjaltasonar, framkvæmdastjóra Elko.
Áformað sé að hefja vinnu við að innrétta nýju Elko-verslunina í vor og opna verslunina fyrir sumarið. Þá var Höldur með bílaleigu í Skeifunni 9 en hún var flutt í Skútuvog þar sem Vaka var áður.
Áforma að hafa bílakjallara
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir gert ráð fyrir íbúðum og atvinnuhúsnæði í stað áðurnefnds atvinnuhúsnæðis í Skeifunni 7 og 9. Fjöldi íbúða liggi ekki fyrir né heldur útfærsla á atvinnuhúsnæði.
Á grafinu hér fyrir ofan má sjá frumdrög að byggingum á reitum Eikar í Skeifunni en austan við Skeifuna 9 er KFC með veitingastað.
Að sögn Garðars er ekki gert ráð fyrir svo miklu byggingarmagni austast á reitnum heldur að KFC verði þar áfram með veitingastað.
Heimild: Mbl.is