Grænlenska þingið hefur samþykkt gerð tveggja nýrra vatnsaflsvirkjana fyrir yfir sextíu milljarða íslenskra króna. Virkjanirnar eiga að verða tilbúnar eftir sjö ár.
Með þeim eykst hlutfall endurnýjanlegrar orku í raforkuframleiðslu og húshitun Grænlendinga úr 70 prósentum upp í 90 prósent. Hlutfall olíu minnkar að sama skapi, sem og kolefnisspor Grænlands.
Fjallað var um orkumál Grænlendinga í fréttum Stöðvar 2 en lítið af vatnsafli Grænlands hefur verið beislað. Bara á svæðinu milli tveggja stærstu bæjanna, Nuuk og Sisimiut, er talið að hægt sé að virkja 650 megavött.
Framkvæmdirnar felast annars vegar í stækkun 45 megavatta virkjunar við Buksefjörð, með 55 megavatta viðbót í nýju stöðvarhúsi, Buksefjorden 2.
Vatnasviðið verður stækkað með 14 kílómetra löngum jarðgöngum sem áætlað er að skili 230 gígavattstundum á ári til viðbótar við núverandi framleiðslu, upp á 250 til 270 gígavattstundir á ári.
Raforkan frá Buksefirði þjónar höfuðstaðnum Nuuk, sem með fólksfjölgun hefur í vaxandi mæli þurft að treysta á dísilrafstöðvar til að mæta raforkuþörf.
Orkan er flutt 58 kílómetra leið til Nuuk en háspennulínan er meðal annars strengd yfir Ameralik-fjörðinn í einu 5,4 kílómetra löngu hafi, sem er það lengsta í heiminum fyrir háspennulínu.
Hin virkjunin á að þjóna bæjunum Aasiaat og Qasigiannguit við sunnanverðan Diskó-flóa. Uppsett afl hennar er áformað 15 megavött og er áætlað að hún skili 94 gígavattstundum á ári.
Grænlendingar eiga í dag fimm vatnsaflsvirkjanir, sem samtals framleiða um 90 megavött. Virkjunin við Buksefjörð er langstærst, 45 megavött, en þar á eftir koma 22,5 megavatta virkjun í Ilulissat og 15 megavatta virkjun í Sisimiut.
Í skýrslu Grænlandsnefndar Össurar Skarphéðinssonar fyrir utanríkisráðherra, sem kynnt var í byrjun ársins, kemur fram að Íslendingar hafi reist allar virkjanir á Grænlandi, að frátalinni virkjuninni í Buksefirði.
Þá hafi Landsvirkjun Power, dótturfélag Landsvirkjunar, komið að rekstri og eftirliti þarlendra virkjana. Ennfremur séu nokkrar bændavirkjanir á Suður-Grænlandi, sem allar hafi verið reistar af fjölskyldufyrirtæki í Árteigi í Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu.
Í skýrslunni er hvatt til þess að komið verði á samstarfi íslenskra og grænlenskra stjórnvalda um smávirkjanir á Austur-Grænlandi sem miði að því að skipta út olíu sem orkugjafa við húshitun og rafmagnsframleiðslu.
Er þar lagt til að Austur-Grænland verði tekið inn í smávirkjanaáætlun Orkustofnunar.
Heimild: Visir.is