Home Fréttir Í fréttum Búfesti með 8 nýjar íbúðir í byggingu

Búfesti með 8 nýjar íbúðir í byggingu

384
0
Framkvæmdir eru hafnar við byggingu þessa húss sem stendur við Skarðshlíð. Þegar hefur komið í ljós mikill áhugi fyrir íbúðunum sem eru 6 talsins í húsinu. Mynd/Búfesti

Búfesti húsnæðissamvinnufélag sem á um 270 íbúðir á Akureyri og Húsavík er í miklum stækkunarfasa þessa dagana.

<>

Félagið hefur hafið framkvæmdir á tveimur þéttingarreitum við Skarðshlíð, þar sem verða alls 8 íbúðir.

Þá er mikil uppbygging fram undan á nýju svæði við Þursaholt í Holtahverfi þar sem á næstu þremur til fjórum árum munu rísa fjöldi íbúða.

Á árunum frá hruni og þar til á síðastliðnu ári hefur ekkert verið byggt á vegum Búfestis þar til nú.

Eiríkur Haukur Hauksson framkvæmdastjóri Búfestis húsnæðissamvinnufélags segir að félagið hafi hvorki byggt né keypt nýjar íbúðir um langa hríð, eða frá hruni.

Fyrir fáum árum fór eftirspurn vaxandi og til að mæta henni var ráðist í að kaupa 15 nýjar íbúðir í Hagahverfi sem tilbúnar voru á síðastliðnu ári.

Það voru fyrstu íbúðirnar á vegum félagsins lengi. „Stjórn félagsins tók þá ákvörðun að fjölga íbúðum vegna mikillar eftirspurnar eftir húsnæði,“ segir hann en auk íbúðanna í Hagahverfi hefur félagið byggt 12 raðhúsíbúðir á Húsavík og verða þær síðustu afhentar fyrir jól.

Mikill áhugi
Þá stendur yfir bygging á stóru tveggja hæða parhúsi, 6 herbergja með bílskýli við Skarðshlíð á móts við Undirhlíð og á dögunum hófust framkvæmdir við 6 íbúða hús ofar við sömu götu.

„Það er á virkilega góðum stað í bænum og við finnum þegar fyrir miklum áhuga fyrir þeim íbúðum,“ segir Eiríkur. Fjórar íbúðanna verða með 4 til 5 herbergjum og tvær eru 2ja til 3ja herbergja.

Búfesti hefur fengið úthlutað lóð við Þursaholt í hinu nýja Holtahverfi norður og segir Eiríkur að Akureyrarbær hafi áform um að þær lóðir verði byggingarhæfar næsta sumar.

„Ef það gengur eftir verður við líka klár,“ segir hann, en við Þursaholt er ráðgert að reisa allt að 140 íbúðir á vegum Búfestis. Hluti þeirra er byggður í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri og nágrenni, EBAK.

„Uppbyggingin við Þursaholt verður aðaláherslan í okkar uppbyggingu á næstu árum þó ef til vill gæti eitthvað fleira bæst við,“ segir hann.

Heimild: Vikudagur.is