Þónokkur eftirspurn virðist vera eftir lóðum á höfuðborgar- svæðinu. Í Garðabæ er stefnt að því að úthluta um 280 lóðum af ýmsum stærðum og gerðum fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram í vor.
Þá eru áform um lóðaúthlutanir í Hafnarfirði fyrir um 4.000 íbúðir á næstu mánuðum.
Fyrir skemmstu var fjallað um væntanlegar lóðaúthlutanir í Reykjavík, Kópavogi og Mosfellsbæ.
Tilgangurinn er að varpa ljósi á framtíðarbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Nú er sjónunum beint að áformum í Garðabæ og Hafnarfirði.
Í Garðabæ er fyrirhugað að bjóða um 280 lóðir út í heildina. Svæðin eru meðal annars á Álftanesi. Þar stendur til að bjóða bæði út einbýlis- og raðhúsalóðir.
Stórum hluta lóðanna verður úthlutað í Hnoðraholti næsta vor og í Vetrarmýri, norðaustan Vífilsstaða. Þar er gert ráð fyrir rúmlega 1.000 íbúðum.
Þá voru einnig boðnar út 20 lóðir undir hesthús á Kjóavöllum í Garðabæ og eru enn 40 lóðir lausar fyrir slík híbýli.
Einnig eru 664 íbúðir á 24 lóðum fyrirhugaðar í Vetrarmýri þar sem einnig er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði.
Sölu lands og gatnagerð á að vera lokið fyrir lok árs. Í Garðahverfi verða rúmlega 30 einbýlishúsalóðir boðnar út eftir áramót.
Í Hafnarfirði eru áform um margs konar lóðir. Framkvæmdir eru þegar hafnar í Hamranesi þar sem eiga að rísa 148 íbúðir í fjölbýli auk þess sem íbúðafélagið Bjarg hyggst reisa annan eins fjölda íbúða.
Síðar á árinu eiga svo að hefjast framkvæmdir á þróunarreit í Hamranesi þar sem eiga að rísa 1.422 íbúðir, einnig í fjölbýli.
Þá hefst á næstu mánuðum uppbygging í Hrauni og úthlutun á lóðum fyrir 100-110 íbúðir á Ásvöllum.
Í Áslandi eru áform um byggingu 480 íbúða, þar af 132 í einbýli, 36 íbúða í parhúsum, 140 í raðhúsum og 172 í fjölbýli. Þær lóðir verða boðnar út með vorinu.
Í Selhrauni stendur til að breyta atvinnulóðum í íbúðarhúsnæði. Þar eiga að rísa 200 íbúðir í fjölbýli.
Á Óseyrarsvæði er gert ráð fyrir 500 til 700 íbúðum. Framkvæmdir á þessum tveimur svæðum eiga að hefjast á næsta ári.
Þá á einnig að vinna að þéttingu byggðar. Samtals eru áform um úthlutanir fyrir 4.000 íbúðir í Hafnarfirði á næstu mánuðum.
Heimild: Ruv.is