Home Fréttir Í fréttum Um 450 lóðir í boði í Reykjavík á þessu ári

Um 450 lóðir í boði í Reykjavík á þessu ári

105
0

Færri lóðir verða boðnar út í Reykjavík á þessu ári heldur en undanfarin ár. Engar íbúðalóðir eru í boði á Seltjarnarnesi þar sem byggingarland er uppurið. Ný hverfi á höfuðborgarsvæðinu eru að taka á sig mynd og byggð að þéttast.

<>

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um hvaða áform væru uppi í hverju sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og mun á næstu dögum fara yfir þau á hverjum stað til að varpa ljósi á hvar framtíðarbyggingarland höfuðborgarsvæðisins er.

Miðað er við úthlutanir fram til loka kjörtímabilsins, en sveitastjórnarkosningar fara fram í maí á næsta ári.

Hlíðarendi, Bryggjuhverfi og Völvufell áberandi
Í Reykjavík stendur til að úthluta lóðum fyrir samtals 1.089 íbúðir á næsta ári. Á þessu ári stendur til að afhenda 450 lóðir sem er nokkuð minna en seinustu ár. Mest var úthlutað árið 2017 þegar rúmlega 1.700 lóðir voru boðnar út.

Þegar hafa um 300 lóðir verið afhendar, bæði til húsnæðisfélaga, í verkefni á vegum borgarinnar og í almennu útboði. Flestum lóðum verður úthlutað við Hlíðarenda, í Bryggjuhverfi og Völvufelli á næsta ári.

Af þessum rúmlega 1.000 íbúðum eru um 330 íbúðir tengdar verkefnum borgarinnar um hagkvæmt og grænt húsnæði framtíðarinnar.

Borgin setti fram áætlun í lok október með tíu ára ára áætlun um úthlutun lóða en þar er að finna lóðir fyrir rúmlega tíu þúsund og tvö hundruð íbúðir til ársins 2030.

500 íbúðir í Glaðheimum í Kópavogi
Í Kópavogi stendur til að úthluta lóðum í Glaðheimum fyrir 500 íbúðir í fjölbýlishúsum. Sú úthlutun er á dagskrá í árslok eða byrjun næsta árs.

Í Vatnsendahvarfi er verið að vinna deiliskipulag. Þar er einnig gert ráð fyrir 500 íbúðum, bæði í fjölbýli og sérbýli. Stefnt er á úthlutun 2022.

Önnur svæði sem eru í uppbyggingu eða á áætlun hjá Kópavogsbæ eru þéttingarsvæði en þau eru ekki samhangandi við lóðaúthlutun, þar sem þegar er búið að úthluta lóðum á þeim svæðum.

Allskonar húsnæði fyrirhugað í Mosfellsbæ
Í Mosfellsbæ eru nokkur skipulags- og uppbyggingarverkefni í gangi, bæði á vegum sveitarfélagsins og í samvinnu við einkaðila.

Í miðbænum er að hefjast bygging á 55 almennum íbúðum í fjölbýli sem og um 100 öryggisíbúðum fyrir aldraða í samvinnu við Eir.

Í Helgafellshverfi eru þrír skipulagsáfangar í ferli. Í fjórða áfanga stendur yfir bygging og gatnagerð fyrir um 180 íbúðir bæði í fjölbýli og í sérbýli. Þessi áfangi er í eigu Byggingarfélagsins Bakka.

Skipulagsvinna stendur svo yfir á vegum bæjarfélagsins á fimmta og sjötta áfanga Helgafellhverfis.

Í fimmta áfanganum er gert ráð fyrir um 150 íbúðum og í sjötta áfangum um 90 íbúðum, flestum í sérbýli. Mosfellbær er því með í uppbyggingar eða skipulagsferli um 575 íbúðir sem eru blanda af fjölbýli og sérbýli.

Sveitarfélagið vinnur einnig að þéttingu svæða og uppbyggingu einkalands sem ekki fer í almenna úthlutun.

Í þessum þremur sveitarfélögum verða boðnar lóðir fyrir samtals 4.900 íbúðir fram til næsta vors miðað við þessi áform.

Heimild:Ruv.is