Home Fréttir Í fréttum Má reisa bílskúra án byggingarleyfis

Má reisa bílskúra án byggingarleyfis

569
0
Framvegis minnkar flækjustig við byggingu sumarhúsa. fréttablaðið/pjetur

Bygging einfaldari mannvirkja verður ekki lengur háð útgáfu byggingarleyfis. Þannig verður hægt að byggja bílskúra og frístundahús án útgáfu byggingarleyfis og nægir að hafa svokallaða byggingarheimild.

<>

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem kveður breytinguna munu draga úr flækjustigi í byggingariðnaðinum.

„Breytingin nú er einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem stigin verða á næstunni til að stytta og einfalda leyfisveitingar vegna byggingarframkvæmda.

Markmiðið er að stytta verulega byggingartíma og með því sporna gegn óhóflegum verðsveiflum á húsnæðismarkaði,“ segir í tilkynningunni.

Fram undan sé frekari endurskoðun, meðal annars með hliðsjón af tillögum OECD sem hafi í fyrra gagnrýnt kerfið hér.

Ákvæði sem varði girðingar, skjólveggi og heita potta verði einfölduð.

Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra að kallað hafi verið eftir því lengi að minnka óþarfa flækjustig í einföldum framkvæmdum.

„Við þurfum að nýta skynsamlega þá fjármuni sem við leggjum í eftirlit með mannvirkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa einfalda skjólveggi eða girðingar,“ er haft eftir ráðherranum.

Heimild: Frettabladid.is