Home Fréttir Í fréttum Of­fram­boð af skrif­stofu­hús­næði

Of­fram­boð af skrif­stofu­hús­næði

206
0
Offramboð er af skrifstofuhúsnæði til leigu um þessar mundir. Meðal annars munu brátt losna margar hæðir í Turninum við Smáratorg þegar Deloitte færir starfsemi sína í nýja skrifstofubyggingu við Dalveg.

Heimavinna og nýbyggingar hafa valdið offramboði skrifstofuhúsnæðis. Á sama tíma er skortur á verslunarhúsnæði.

<>

Halldór Már Sverrisson, fasteignasali og leigumiðlari hjá Atvinnueign, segir lítið framboð af flestu atvinnuhúsnæði nema skrifstofuhúsnæði til leigu þessa dagana.

„Staðan er sú að það er lítið til af eignum til kaups. Í leigu er mikill skortur á verslunarhúsnæði, og ekkert sérlega mikið af iðnaðarrýmum, en á sama tíma offramboð af skrifstofuhúsnæði, sérstaklega stóru.“

„Ég held að það sé mögulega til eitt verslunarhúsnæði einhvers staðar ef maður skoðar vel. Það er algjör skortur á því,“ segir Halldór. Verðþróun sé því eins og við má búast á talsverðri siglingu upp á við. Eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði sé hins vegar lítil, fáir séu að leita og margir að minnka við sig.

Deloitte sé sem dæmi á leið úr turninum við Smáratorg, Landsbankinn í nýjar höfuðstöðvar sem verið er að byggja, og mörg þúsund fermetrar lausir í Borgartúni 26.

Aðspurður segir hann heimsfaraldurinn og heimavinnu honum tengda tvímælalaust hafa haft áhrif. „Alveg klárlega. Fyrirtæki með stórt skrifstofuhúsnæði hafa verið að minnka við sig vegna heimavinnu starfsmanna.“

Lítið um minna skrifstofuhúsnæði til sölu
Þótt ofgnótt sé af skrifstofuhúsnæði til leigu, sé aðra sögu að segja af slíku húsnæði til sölu. Afar erfitt sé sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki að eignast eigin skrifstofuhúsnæði. Verðið hafi því ekki lækkað þrátt fyrir offramboðið á leigumarkaðnum, hvorki á kaupum né leigu.

„Megnið af þessu er til leigu. Vandinn er sá að þótt framboðið sé mikið, þá er megnið af því í eigu stóru fasteignafélaganna, og þau eru ekkert að lækka verðið neitt sérstaklega mikið.

Í ofanálag er svo alger skortur á minni skrifstofurýmum – segjum 100-300 fermetrar – til sölu,“ segir hann og útskýrir að megnið af því skrifstofuhúsnæði sem til er sé í höndum fasteignafélaganna og stórra verktaka sem byggja það og leigja það svo út í gegn um eigin fasteignafélög í stað þess að selja. Ef þau svo á annað borð vilji selja, þá séu það vanalega heilar byggingar í einu.

Heimild: Vb.is