Home Fréttir Í fréttum Garðabær í hröðum vexti

Garðabær í hröðum vexti

83
0
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Mynd: Eyþór Árnason

Reiknað er með að íbúum Garðabæjar muni fjölga um þriðjung í kjölfar byggingar á tæplega 3 þúsund íbúðum í sveitarfélaginu.

<>

Átímabilinu 2021-2028 stefnir Garðabær á að byggja hátt í 2.900 íbúðir en um verður að ræða fjölbýlishús, sérbýli, parhús og raðhús.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að reiknað verði með að íbúum Garðabæjar muni fjölga um u.þ.b. 6.000 manns við þessa húsnæðisuppbyggingu.

„Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan í Garðabæ og næstu sjö til átta árin mun eiga sér stað mikill vöxtur innan bæjarfélagsins sem kallar á miklar fjárfestingar í innviðum.

Þegar íbúum fjölgar þarf að reisa leikskóla, skóla og ýmsa aðra þjónustu. Fjárhagslega mun aðeins taka í meðan á framkvæmdum stendur en svo mun komast á gott jafnvægi á fjárhag sveitarfélagsins að þessum árum liðnum.”

Í dag eru íbúar Garðabæjar rúmlega 18 þúsund og segir Gunnar að mesta fjölgun íbúa innan höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum hafi átt sér stað í sveitarfélaginu.

Hann bendir á að í sveitarstjórnarfræðum sé oft talað um að íbúafjöldi upp á 25 til 35 þúsund manns sé mjög hentug stærð í einu bæjarfélagi.

„Í þessari stærð á að vera mögulegt að halda góðri yfirsýn og skilvirkni, auk þess sem umhyggja, nándarkærleikur og lýðræði þrífst betur en í mjög stórum einingum. Garðabær hefði alveg möguleika á að stækka upp í 100 þúsund manna bæjarfélag en í okkar aðalskipulagi til 2040 er horft til þess að íbúafjöldinn sé 25 til 35 þúsund manns.

Við erum ekki í neinu kapphlaupi við önnur sveitarfélög um fjölgun íbúa eða eitthvað slíkt, heldur erum við með ákveðna sýn. Þegar sú sýn hefur orðið að veruleika fer öll orka og vinna sveitarfélagsins í að hlúa að þessum 25 til 35 þúsund íbúum og gera eins vel við þá og mögulegt er,” segir Gunnar, sem segir að þannig sé lögð áhersla á gæði fremur en magn.

Heimild: Vb.is