Home Fréttir Í fréttum Kranamaður sofnaði í ölvímu í 40 metra hæð á Þeystareykjum

Kranamaður sofnaði í ölvímu í 40 metra hæð á Þeystareykjum

131
0

„Þetta er bara hræðilega leiðinlegt mál fyrir manninn og sem betur fer varð ekki slys,“ segir Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins LNS-Saga, um stjórnanda á stórum byggingakrana sem sofnaði í ölvímu í 40 metra hæð á vinnusvæðinu að Þeistareykjum, skammt frá Húsavík, í gær.

<>

LNS-Saga sér um framkvæmdir á stöðvarhúsi og gufulögnum Þeistareykjavirkjunar fyrir Landsvirkjun en maðurinn sem var á byggingakrananum var undirverktaki fyrir LNS-Saga.

Samkvæmt heimildum Vísis var maðurinn að hífa stóra stálbita fyrir stöðvarhúsið en hætti því um stund og fór þá starfsmenn á svæðinu að gruna að ekki væri allt með felldu. Þegar þeir loksins náðu talstöðvarsambandi við manninn vaknaði sá grunur að hann væri undir áhrifum áfengis og var haft samband við lögreglu.
 Ásgeir Loftsson segir allt hafa verið gert til að tryggja öryggi starfsmanna á svæðinu og var hringt á lögregluna eins og lög gera ráð fyrir og manninum hjálpað niður úr krananum.

„Annars er þetta brot á okkar reglum og við sjáum í hvaða farveg þetta fer. Við eigum eftir að fá niðurstöður frá lögreglu en það er óvenjulegt að vera undir áhrifum í vinnunni,“ segir Ásgeir.

Spurður hvort hættuástand hafi skapast á vinnusvæðinu segist hann telja svo vera. „Ég held að það skapist alltaf hætta þegar menn eru ekki með fullu ráði í vinnunni, sérstaklega þegar menn eru á krana. Það eru gerðar miklar kröfur til allra sem eru á vinnuvélum á vinnusvæði.“

Ásgeir segir framkvæmdir við virkjunina annars ganga ágætlega. Fyrirtækið hafi verið að störfum á svæðinu í hálft ár og ekki orðið neitt fjarveruslys, sem er slys sem veldur því að starfsmaður er óhæfur til að gegna vinnu.

LNS Saga er á íslenskri kennitölu, stofnað haustið 2012, og með skrifstofur að Hlíðasmára 4 í Kópavogi. Félagið er dótturfyrirtæki LNS í Noregi, sem stundar verktakastarfsemi um allan heim.

Heimild: Vísir.is