Home Fréttir Í fréttum World Class byggir heilsuræktarstöð og heilsuhótel á Fitjum

World Class byggir heilsuræktarstöð og heilsuhótel á Fitjum

549
0

Mun skapa um eitthundrað ný störf. Horft til ferðamanna vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll.

<>

Stærsta heilsuræktarstöðvarkeðja landsins, World Class, mun hefja byggingu á 8400 fermetra húsnæði undir heilsuræktarstöð og heilsuhótel á Fitjum í Njarðvík næsta vor.

Þá verður starfsemin tengd baðlóni, útisturtum, heitu pottum, gufu og potti fyrir sjósund. Björn Leifsson, eigandi World Class segir í viðtali við Morgunblaðið að starfsemin muni skapa um 100 störf og að hann horfi m.a. til þess hvað staðsetningin sé nálægt Keflavíkurflugvelli.

„Þetta verður mikið aðdráttarafl og fólk mun m.a. taka sunnudagsrúntinn til Reykjanesbæjar, baða sig og kaupa aðra þjónustu,“ segir Björn í viðtalinu en heildarkostnaðurinn er áætlaður nærri 9 milljarðar króna.

Heilsuhótelið verður fjögurra stjörnu og með 80 herbergjum og þar verður boðið upp á margvíslega þjónustu eins og snyrti- og nuddstofu auk veitingaþjónustu.

Að sögn Björns er ætlunin að tvinna saman ferðaþjónustu og líkamsrækt. Að umfangi verður þetta verkefni um 50% stærra en Laugar í Laugardal sem er stærsta stöð fyrirtækisins í dag.

Björn tók þátt í útboði á gömlu steypustöðinni sem er á lóðinni en segist hafa fengið tilboð frá Reykjanesbæ um að jafna hana við jörðu og slétta svæðið og í staðinn fengi lóð á svæðinu í staðinn.

„Þegar við lögðumst yfir þann möguleika kom hugmyndin að baðlóninu upp og við keyrðum á það,“ segir hann við Morgunblaðið.

Heimild: Vf.is