Home Fréttir Í fréttum Borgin stígur stórt skref í framþróun eignaumsjónar

Borgin stígur stórt skref í framþróun eignaumsjónar

65
0
Mynd: Reykjavíkurborg

Nýtt eignaumsjónarkerfi sem er í innleiðingu hjá Reykjavíkurborg mun bæta yfirsýn og auka skilvirkni í rekstri og viðhaldi á einu stærsta eignasafni landsins.

Verkefnið er liður í stafrænni vegferð Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg gekk nýlega frá samningi um nýtt eignaumsjónarkerfi fyrir viðhald fasteigna í eigu og/eða rekstri borgarinnar ásamt stofnanalóðum og almenningssvæðum í borgarlandinu.

Kerfið er beintengt öðrum upplýsingakerfum borgarinnar og fjárhagsbókhaldi og í því er haldið utan um allt viðhald mannvirkja.

Eignaumsjónarkerfið MainManager frá hugbúnaðar-fyrirtækinu Örn Software varð hlutskarpast í útboði sem Reykjavíkurborg stóð fyrir en kerfið var boðið út á EES-svæðinu.

Við mat á tilboðum var auk verðs litið til virkni, gæða og notendavænleika kerfisins en MainManager hefur verið eitt af leiðandi fyrirtækjum á Norðurlöndum við þróun og útfærslu slíkra kerfa.

Liður í stafrænni vegferð borgarinnar
Starfsfólk á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar hefur stýrt vinnu við verkefnið þ.á.m. undirbúning og þarfagreiningu í samvinnu við starfsfólk á skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Verkefnið er eitt af fjárfestingarverkefnum í stafrænni vegferð borgarinnar.

Um er að ræða nýja útgáfu af MainManager-eignaumsjónarkerfinu sem þróað var á Íslandi, en eldri útgáfa kerfisins hefur verið í notkun hjá Reykjavíkurborg um nokkurt skeið.

Kerfið mun þjóna einu stærsta eignasafni landsins því Reykjavíkurborg á og sinnir viðhaldi á um 500.000 m2 fasteigna, 300 leiksvæðum, 110 leik- og grunnskólalóðum auk almenningsgarða, útvistarsvæða o.þ.h.

Allt viðhald mannvirkja og lóða í kerfinu
Í eignaumsjónarkerfinu er haldið utan um allt viðhald mannvirkja og lóða Reykjavíkurborgar, ef frá eru taldar umferðargötur og lýsing, hvort sem um er að ræða áætlað, fyrirbyggjandi eða tilfallandi viðhald.

Markmið með notkun kerfisins er m.a. að fá betri yfirsýn yfir viðhaldsþörf eigna, viðhaldskostnað, líftíma bygginga eða byggingahluta og gæði þjónustunnar sem veitt er.

Notkun eignaumsjónarkerfisins skerpir á verkferlum í viðhaldi eigna. Sagan er skráð í kerfið frá því að beiðni eða áætlun um viðhald er skráð og þar til verki lýkur.

Auðveldara verður að viðhafa kostnaðargát, auka hagræði og gæði viðhaldsins auk þess sem verkefnastjórar viðhaldsframkvæmda, aðrir stjórnendur Reykjavíkurborgar, notendur eigna og þjónustuaðilar munu fá betri yfirsýn yfir framkvæmdir, kostnað og framgang verkefna.

Aukin skilvikni og áreiðanleiki
Eignaumsjónarkerfið er beintengt öðrum upplýsingakerfum borgarinnar og fjárhagsbókhaldi sem eykur skilvirkni og áreiðanleika við áætlanagerð, vinnslu, upplýsingaöflun og skráningu.

Í kerfinu er m.a. aðgangur að uppdráttum mannvirkja og í náinni framtíð eru áætlanir um að nota þrívíð upplýsingalíkön af mannvirkjum (Building information modeling (BIM)).

Upplýsingalíkan er gagngrunnur með upplýsingum um kerfi, búnað og byggingarefni sem notuð eru í mannvirki og beinn aðgangur að þessum upplýsingum auðveldar mjög alla áætlanagerð og undirbúning viðhaldsverkefna.

Í framtíðinni verður einnig hægt að nýta eignaumsjónarkerfið til annarra tengdra verkefna s.s. búnaðarstjórnunar og rýmisstjórnunar í fasteignum Reykjavíkurborgar.

Ávallt leitað bestu gæða í viðhaldi
Gert er ráð fyrir að uppsetningu og innleiðingu eignaumsjónarkerfis Reykjavíkurborgar ljúki í sumarbyrjun 2022. Reynslutölur sýna að notkun eignaumsjónarkerfis eins og þessa getur sparað bæði viðhalds- og rekstrarkostnað mannvirkja töluvert.

Reykjavíkurborg leitar ávallt bestu gæða í viðhaldi á mannvirkjum borgarinnar og að hámarka nýtingu fjármagns. Innleiðing eignaumsjónarkerfisins mun styrkja það vinnulag.

Heimild: Reykjavíkurborg

Previous articleVatnsnesvegur kominn í hópfjármögnun á Karolina Fund
Next articleWorld Class byggir heilsuræktarstöð og heilsuhótel á Fitjum