Útboð Garðabæjar um kaup á þjónustu rafvirkja vegna raflagna fól í sér ýmis brot á reglum. Bærinn hefur verið úrskurðaður skaðabótaskyldur gagnvart Rafmagnsþjónustunni ehf.
Útboðsgögn voru birt 18. júní í sumar og sótti Rafmagnsþjónustan gögnin á heimasíðu Garðabæjar. Bærinn féll hins vegar frá útboðinu.
Rafmagnsþjónustan taldi að Garðabæ hafi borið að auglýsa útboðið á EES-svæðinu en bærinn hélt það fram að svo væri ekki því innkaupin hafi ekki náð ákveðinni viðmiðunarfjárhæð sem er 27.897.000 krónur.
Kærunefnd útboðsmála er ósammála túlkun Garðabæjar. Um hafi verið að ræða innkaup á þjónustu rafiðnaðarmanna fyrir þrjú nánar tilgreind svæði.
Fyrir liggi að kostnaðaráætlun bæjarins fyrir hvert svæði hafi verið 23.475.000 krónur miðað við tveggja ára samningstíma og heimilt væri að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár í senn.
„Því verður að miða við að áætlað verðmæti hins útboðna samnings hafi verið umfram viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu sveitarfélaga á EES- svæðinu þegar tekið er tilliti til samanlagðs áætlaðs virðis varnaraðila vegna hvers hinna þriggja svæða um sig og allt að fjögurra ára samningstíma,“ segir kærunefndin sem kveður marga fleiri annmarka hafa verið á framkvæmd útboðsins.
Þá segir kærunefndin að Garðabær séu skaðabótaskyldur vegna tjóns sem brot á reglum um opinber innkaup hafi í för með sér fyrir fyrirtæki.
„Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið,“ segir kærunefndin sem kveður bótafjárhæð eiga að miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði.
„Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður því að miða við að kærandi hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valin af kaupanda og að möguleikar hans hafi skerst við brot varnaraðila [Garðabæjar],“ segir kærunefndin.
Úrskurður kærunefndarinnar var lagður fram í bæjarráði Garðabæjar fyrr í dag.
Þar lagði Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans fram fyrirspurn um þann kostnað bæjarins vegna kaupa á lögfræðiþjónustu og um kostnað vegna þjónustu verkfræðistofa vegna útboðsins.
„Líkt og fram kemur í gögnum málsins hefur bærinn notið aðstoðar verkfræðistofu við undirbúning rammaútboðs og lögfræðistofu. Hversu mikla skaðabótaábyrgð bera þeir aðilar í þessum úrskurði?“ spyr Ingvar.
„Hvers vegna var ekki gengið til samninga við lægstbjóðendur í stað þess að gera Garðabæ skaðabótaskyldan líkt og kemur fram í úrskurði kærunefndar og hver tók þá ákvörðun?“ spyr bæjarfulltrúinn ennfremur.
Bæjarráðið fól Gunnari Einarssyni bæjarstjóra að svara fyrirspurn Ingvars Arnarsonar.
Heimild: Frettabladid.is