Home Fréttir Í fréttum Gamall olíu­tankur verður sumar­hús á Snæ­fells­nesi

Gamall olíu­tankur verður sumar­hús á Snæ­fells­nesi

524
0
Fyrir og eftir. Að utan er tankurinn klæddur með álklæðningu í tveggja þátta lit sem minnir á norðurljós. Mynd/Samsett

Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þórir Gunnarsson matreiðslumaður vinna nú að því að umbreyta gömlum olíutanki á Rifi á Snæfellsnesi í íbúðarhús.

<>

Hugmyndin kom þannig að Þóri langaði alltaf að kaupa eyðibýli og gera upp,“ segir Hildigunnur Haraldsdóttir aðspurð, hvernig það kom til að hún og Þórir Gunnarsson ákváðu að breyta olíutanki í sumarbústað.

„Ég er að vinna mikið í Snæfellsbæ og hann keyrði mig og samstarfskonu mína þangað.

Þegar við komum að tankinum sagði ég honum að það ætti að rífa tankinn og að mér fyndist miklu meira spennandi að gera hann upp heldur en eitthvert eyðibýli,“ segir Hildigunnur sem er arkitekt og einkar hlynnt því að endurnýta mannvirki sem þjóna ekki lengur upphaflegu hlutverki.

Að sögn hennar leist Þóri svo vel á hugmyndina að hann ákvað strax að hafa samband við hafnar- og bæjaryfirvöld vegna lóðarinnar.

„Ég fór á fund og þegar ég kom af honum var Þórir búinn að fá vilyrði fyrir því að við gætum fengið lóðina. Daginn eftir hafði hann samband við Skeljung sem átti tankinn og þá var strax gengið frá munnlegu samkomulagi og á nokkrum dögum var gengið frá öllu skriflega.“

Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þórir Gunnarson matreiðslumaður. Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Það lá vel fyrir Hildigunni og Þóri að taka sér verkefnið fyrir hendur, en hún er arkitekt og Þórir hefur gert upp mörg hús í Tékklandi, hvar hann rak vinsælan veitingastað á árum áður.

Þau hafa sterkar taugar til svæðisins og eiga bæði rætur að rekja til Snæfellsness, auk þess sem Hildigunnur hefur unnið töluvert að skipulagsmálum þar.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var tankurinn aðeins farinn að láta á sjá þegar þau tóku við honum, en Hildigunnur segir hann þó hafa verið í merkilega góðu ásigkomulagi.

„Við verðum að segja það Skeljungi til hróss að tankurinn var svo hreinn og fínn að við urðum bæði heilluð af honum þegar við komumst inn í hann.

Hann er léttryðgaður að innan og það hefur verið skrifað á hann eftir þykktarmælingar og þetta fær allt að halda sér. Hann er grófur að innan og fær að halda því útliti.“

Að sögn Þóris eru framkvæmdirnar komnar vel á veg, þótt ekki sé ljóst hvenær tankurinn verði íbúðarhæfur.

„Við erum komin með grind og plötur fyrir milliloft í hann og erum langt komin með að einangra og klæða hann að utan. Það sem vekur mesta athygli núna er hvernig hann lítur út að utan. Hann er eins og norðurljósin,“ segir hann.

Að utan er tankurinn klæddur með álklæðningu í tveggja þátta lit sem hefur þau skemmtilegu áhrif að liturinn breytist með veðurfari og birtuskilyrðum. Áferðin minnir á norðurljós og fer frá bleikum yfir í blágrænan, svo húsið mun án efa njóta sín vel með Breiðafjörðinn í bakgrunni og Snæfellsjökul í suðri.

„Við höfum verið lánsöm með iðnaðarmenn frá Snæfellsnesi, sem hafa unnið öll verk, nema að þakfrágangur var unninn af þakmönnum frá höfuðborgarsvæðinu,“ segja þau Hildigunnur og Þórir.

Heimild: Frettabladid.is