Home Fréttir Í fréttum Sögulegar hafnarframkvæmdir á Ísafirði

Sögulegar hafnarframkvæmdir á Ísafirði

94
0
Mynd:Ruv.is
Verið er að reka niður stálþil í Ísafjarðarhöfn þar sem lengja á höfnina um 320 metra. Hafnarstjórinn segir að þetta sé söguleg framkvæmd.

Stækkun hafnarinnar á Ísafirði er í fullum gangi og stefnt er á að hægt verði að leggja við nýjan kant í júlí á næsta ári. Lengingin hljóðar upp á 320 metra.

<>

Það meira en tvöfaldar núverandi kant sem er 200 metrar. Með þessu geta fleiri og stærri skemmtiferðaskip lagt að bryggju. Árið áður en faraldurinn skall á komu 126 skip til Ísafjarðar.

„Með þessari lengingu áætlum við að geta tekið tvö stór skip að bryggju og þar af leiðandi auka tekjur okkar um fimmtíu milljónir á ári bara sem bein afleiðing af stækkuðu viðlegurými,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri.

Hæsti grindarbómukrani landsins nýttur til verksins

Nýr krani var keyptur til framkvæmdarinnar. Hann er 60 metra hár og því hæsti grindarbómukrani landsins. Enda dugar ekkert smáræði í stórræði sem þessi; framkvæmdin er sú stærsta í hafnarsögu Ísafjarðar.

„Þetta er upp á einn milljarð. Höfnin greiðir 40 prósent og sextíu prósent er á samgöngugáætlun og kemur frá ríkinu. Ég held það megi fullyrða það að þetta sé stærsta einstaka hafnarframkvæmd sem gerð hefur verið á Ísafirði, jafnvel þótt leitað sé langt aftur í tímann.“

Allar lóðir í landfyllingu á suðurtanga farnar undir hafsækna starfsemi.

Dýpkun hafnarinnar er nú í útboði á evrópska efnahagssvæðinu. Efnið sem verður dælt úr höfninni verður nýtt til landfyllingar bæði á Ísafirði og í Súðavík.

Suðurtanginn stækkar um margar þúsundir fermetra og eru allar lóðir farnar undir hafsækna starfsemi.

Þar er hraðfrystihúsið Gunnvör stærst, og áætlar að flytja þangað alla sína starfsemi í framtíðinni.

Þá hafi fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish jafnframt fest hald á stóra lóð í væntanlegri landfyllingu.

Heimild:Ruv.is