Home Fréttir Í fréttum Vilja nýja brú yfir Skjálfandafljót

Vilja nýja brú yfir Skjálfandafljót

114
0

Sveitarstjórn Norðurþings vill að einbreiðri brú yfir Skjálfandfljót verði skipt út sem fyrst þar sem hún sé orðin að flöskuhálsi í þungaflutningum á milli Akureyrar og Húsavíkur. Brúin er ekki á samgönguáætlun næstu fjögurra ára. Sveitarstjóri Norðurþings segir þetta sérstaklega mikilvægt í ljósi aukinna þungaflutninga á milli Akureyrar og Húsavíkur vegna uppbyggingar sem hafin er á Bakka.

<>

80 ára gömul einbreið brú
Brúin er í Útkinn á Norðausturvegi númer 85 og er komin til ára sinna.„Það gefur svo sem auga leið að áttatíu ára gömul brú, einbreið brú er barn síns tíma.“Segir Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Sveitarstjórn Norðurþings hefur beint þeim óskum til Vegagerðarinnar og ríkisstjórnar að brúnni verði skipt út sem fyrst.

Flutningabílar þurfa að fara lengri leið
Þungatakmarkanir eru á brúnni og vegna þess þurfa stærri flutningabílar að fara yfir Fljótsheiði á leiðinni frá Akureyri til Húsavíkur.

„Flutningabílar sem eru of þungir þurfa að fara aðra leið yfir Fljótsheiðina sem getur verið erfið yfirferðar sérstaklega að vetri til, fyrir utan það að það er lengri leið sem að þýðir aukinn kostnaður fyrir atvinnurekendur og því er síðan væntanlega velt inn í verðlagið.“

Formaður umhverfis – og samgöngunefndar telur þörf á nýrri brú
Höskuldur Þórhallsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar sagði í samtali við fréttastofu að hann teldi fulla þörf á að byggja þarna nýja brú og að það yrði skoðað mjög alvarlega hvort mögulegt sé að flýta þessari framkvæmd. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er brúin á áætlun fyrir árin 2019-2022.

Kristján Þór segist vonast til að brugðist verði við óskum Norðurþings sem fyrst.

„Já við munum fylgja þessu eftir og óskum eftir því að þetta mál verði tekið upp og þessi brú verði sett inn á samgönguáætlun sem vonandi verður samþykkt fyrir næsta ár.“

Heimild: Rúv.is