Home Fréttir Í fréttum Björgólfur Thor kærir Reykjavíkurborg

Björgólfur Thor kærir Reykjavíkurborg

297
0
Kaupsýslumaðurinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur kært Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ástæðan er ákvörðun byggingafulltrúa borgarinnar að meina Björgólfi að fjarlægja aðalstiga hússins að Fríkirkjuvegi 11.

Fram kemur í kærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, að Björgólfur telji að byggingafulltrúi borgarinnar, Nikulás Úlfar Másson, hafi verið vanhæfur þegar hann bannaði að stiginn yrði fjarlægður.  

Persónuleg sjónarmið ráðið för

Í kærunni er nefnt að Nikulás hafi áður tekið ákvörðun sem forstöðumaður húsafriðunarnefndar sem snýr að framkvæmdum við Fríkirkjuveg. Þá hafi hann lýst yfir skoðunum sínum vegna breytinga á Fríkirkjuvegi 11 – meðal annars á opinberum vettvangi og í fjölmiðlum. „Þar hefur hann með afdráttarlausum hætti lagst gegn breytingum á húsinu og lóð þess.“

Í kærunni segir enn fremur að Björgólfur hafi ástæðu til að ætla að persónuleg sjónarmið Nikulásar Úlfars hafi haft áhrif við meðferð málsins: „enda hafi hann tekið afstöðu gegn breytingum í sínu fyrra starfi og í eigin persónu á opinberan og afdráttarlausan hátt,“ segir í kærunni.

Þá telur Björgólfur einnig að ágalli hafi verið á málsmeðferð – byggingafulltrúanum hefði borið að veita sér færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun um stigann var tekinn.  Ákvörðun byggingafulltrúans sé háð annmörkum sem eigi að leiða til ógildingar.

Þá telur Björgólfur að byggingafulltrúinn hafi farið út fyrir sitt hlutverk þegar hann hafnaði útgáfu byggingarleyfis fyrir Fríkirkjuveg 11 – fyrir hafi legið samþykki forsætisráðuneytisins og Minjastofnunar um að fjarlægja mætti stigann.

„Fallegasta stigarými landsins“

Þetta stiga-mál á sér nokkurn aðdraganda og það hefur lengi verið karpað um það.

Húsafriðunarnefnd taldi á sínum tíma að breytingarnar sem Björgólfur vildi gera á húsinu myndu rýra gildi hússins mjög mikið. Nefndin vildi friða það að innan og Nikulás, sem var þá formaður húsafriðunarnefndar, sagði meðal annars um stigann í samtali við fréttastofu í byrjun árs 2012. „Þarna er um að ræða eitt best varðveitta og fallegasta stigarými sem við eigum á þessu landi.“

Húsafriðunarnefnd fékk sínu fram þegar mennta-og menningarmálaráðuneytið friðaði innra byrði hússins. Sú ákvörðun var kærð til Umboðsmanns Alþingis sem fól Minjastofnun, sem þá hafði tekið við af húsafriðunarnefnd, að fara yfir málið.

Og Minjastofnun féllst á þá hugmynd Björgólfs að fjarlægja stigann.  Það var þó gert með því skilyrði að hægt yrði að koma honum fyri á sama stað og það  á kostnað Björgófs – fyrir þessu samkomulagi liggur fyrir þinglýst kvöð.

Heimild: Rúv.is

 

 

 

Previous articleVilja nýja brú yfir Skjálfandafljót
Next articleGröfutækni ehf á Flúðum bauð lægst í gerð strandstígsins milli Stokkseyrar og Eyrarbakka