Home Fréttir Í fréttum Arion fjármagnar 15 milljarða framkvæmd

Arion fjármagnar 15 milljarða framkvæmd

174
0
Ásgeir Reykfjörð, aðstoðarbankastjóri Arion banka, og Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga, við undirritun samningsins Aðsend mynd

Norðurál og Arion hafa skrifað undir samning um græna fjármögnun á nýrri framleiðslulínu í steypuskála á Grundartanga.

<>

Fulltrúar Norðuráls og Arion banka hafa skrifað undir samning um græna fjármögnun á nýrri framleiðslulínu í steypuskála Norðuráls á Grundartanga. Um er að ræða fjárfestingaverkefni sem hleypur á um 120 milljónum dala, eða um 15 milljörðum króna.

Fyrst var greint frá fjárfestingunni í júlí síðastliðnum við undirritun Landsvirkjunar og Norðuráls á nýjum raforkusamningi sem fól í sér þriggja ára á fyrri samningi.

Ný framleiðslulína gerir Norðuráli kleift að vinna fleiri og verðmætari vörur úr því áli sem unnið er í álveri fyrirtækisins.

Framleiddar verða álstangir til að mæta eftirspurn frá evrópskum viðskiptavinum, en stangirnar verða nýttar í vörur eins og bíla, flugvélar, byggingar og raftæki. „Aukið vöruframboð styrkir jafnframt vörumerki Norðuráls, Natur-AlTM, en kolefnisspor þess er með því lægsta í heimi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Ekki er um að ræða aukningu á álframleiðslu, heldur verður álið unnið áfram og verðmeiri afurð en áður búin til en áður, en álstangir eru verðmætari en hleifar sem steyptir eru í núverandi steypuskála.

Fram kemur að með nýrri framleiðslulínu sparist umtalsverð orka í steypuferlinu eða um 40% auk þess sem útflutningstekjur Norðuráls aukast um yfir 4 milljarða á ári.

Þá segir að byggingarframkvæmdirnar munu skapa um 100 störf, en þegar við gangsetningu nýju framleiðslulínunnar skapast um 40 störf til framtíðar.

Arion banki gaf í sumar út sína fyrstu grænu fjármálaumgjörð sem tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Umgjörðin fjallar m.a. um þau skilyrði sem lánveitingar bankans þurfa að uppfylla til að teljast grænar.

Umgjörðin er byggð á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði, ICMA, og horfir til flokkunarkerfis Evrópusambandsins og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Norska matsfyrirtækið Cicero veitti álit á umgjörðinni.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

„Við fögnum því að fá tækifæri til að taka þátt í þessu spennandi verkefni með Norðuráli. Verkefnið hefur margvísleg jákvæð áhrif og skapar tugi nýrra starfa. Í kjölfar þess að hafa gefið út heildstæðan grænan fjármálaramma síðastliðið sumar fórum við í okkar fyrstu alþjóðlegu grænu skuldabréfaútgáfu þar sem við nutum hagstæðra kjara. Það er einstaklega ánægjulegt að Norðurál fái nú notið góðs af þeim kjörum og styðja við verkefni sem gerir fyrirtækinu kleift að framleiða verðmætari vörur hér á landi með minni orkunotkun og minna kolefnisspori.“

Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls Grundartanga

„Það er okkur sönn ánægja að geta tekið þetta skref að nýju framleiðslulínunni. Með því að nýta endurnýjanlega raforku til að vinna álið áfram á Íslandi verða til aukin verðmæti á Íslandi og aukin verðmæti verða eftir á Íslandi. Við erum með þessu bæði að stuðla að minni orkunotkun og minni losun gróðurhúsalofttegunda í álframleiðslunni. Það er til marks um það hversu jákvæð umhverfisáhrif verkefnisins eru að lánveitingin fellur undir græna fjármálaumgjörð Arion banka.“

Heimild: Vb.is