Home Fréttir Í fréttum Merkir uppdrættir Bolungarvíkur fundust í fangaklefa

Merkir uppdrættir Bolungarvíkur fundust í fangaklefa

210
0
Mynd: Ruv.is

„Hér eru gömlu geymslur bæjarskrifstofunnar og ég var búinn að heyra að hér væru gamli uppdrættir af skipulagi bæjarins frá Guðjóni Samúelssyni,“ segir Finnbogi Bjarnason, skipulags- og byggingafulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar.

<>

Og leitin bar árangur. Finnbogi fann eina mynd í gamalli geymslu og aðra í gömlu fangaklefa, enda hefur ráðhúsið í Bolungarvík gegnt margvíslegu hlutverki, til dæmis hýst lögregluna.

Guðjón Samúelsson var húsameistari ríkisins og sat í fyrstu skipulagsnefnd ríkisins sem var sett á fót árið 1921.

Eitt af fyrstu verkefnum nefndarinnar var skipulag Bolungarvíkur. „Þarna sáu Guðjón Samúelsson og Guðmundur Hannesson, skipulagsfrömuður, einstakt tækifæri til að skipuleggja íslenskan fyrirmyndar sjávarbæ,” segir Pétur Ármannsson, arkitekt.

„Og hann skipuleggur, eða teiknar upp, heilan bæ ekki bara gatnaskipanina heldur teiknar hann þrívíddarmynd þar sem hann sýnir gerð og útlit og form af nánast hverju einasta húsi í bænum.

Og þessi teikning Guðjóns er algjörlega einstök í íslenskri skipulagssögu.”

„Þetta er frá þeim tíma sem að hann sjálfur teiknaði með eigin hendi, frumritið sem er hjá Skipulagsstofnun er ekki litað.

Þetta er sem sagt afrit sem er tekið af því og vatnslitað með lit og þetta hefur hann væntanlega gert til að heimamenn áttuðu sig betur á teikningunni – að hún yrði auðlæsilegri,” segir Pétur.

Guðjón Samúelsson gerði ráð fyrir því að byggðin yrði flutt í heild sinni ofar í landið og að það yrði grafin höfn inn í landið og leysti þannig hafnleysu bæjarins.

En eins og með margar háleitar og framsæknar hugmyndir þá varð þetta skipulag ekki að veruleika. Fátt ef ekkert, ber vitni um þessi stórhuga skipulagsáform Guðjóns Samúelssonar í Bolungarvík.

Finnbogi á sér þó draum að geta teiknað upp þetta skipulag í heild sinni í þrívídd svo að fólk geti gengið um Bolungarvík og séð skipulagið sem Guðjón sá fyrir sér, fyrir þennan fyrirmyndarsjávarbæ í norðri.

„Að fólk geti fengið að ganga um skipulag Guðjóns með þrívíddargleraugu og séð hvað hann var að hugsa og hversu frábærlega vel skipulagt þetta var hjá Guðjóni,“ segir Finnbogi.

Heimild: Ruv.is