„Það er verið að skoða af alvöru framleiðslu á íblöndunarefni í sement úr íslenskum jarðefnum. Þetta er sérstaklega hugsað til að lækka kolefnisspor sements,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf.
Uppi eru áform um að reisa verksmiðju í Þorlákshöfn sem mun nýta móberg og íslenskt rafmagn til framleiðslu íblöndunarefnisins. Með því mun kolefnisspor steypu lækka.
Miðað er við að flutt verði út milljón tonn af efninu á ári, aðallega til Norður-Evrópu. Frummat gerir ráð fyrir að heildarfjárfestingin nemi um tíu milljörðum króna. Framkvæmdir við verksmiðjuna gætu hafist eftir 2-3 ár og framleiðsla mögulega 2024 eða 2025.
Móbergið verður þurrkað og malað í verksmiðjunni. Horft er til þess að nýta hreina íslenska raforku við vinnsluna þannig að kolefnisspor framleiðslunnar verður lítið sem ekkert. Raforkuþörfin gæti orðið svipuð og hjá lítilli stóriðju.
Heimild: Mbl.is