Home Fréttir Í fréttum Ætla að byggja allt að 1200 íbúðir í Ártúnsholti

Ætla að byggja allt að 1200 íbúðir í Ártúnsholti

119
0
Lóðakaupasamningur undirritaður Mynd: Aðsend mynd - RÚV

Þorpið vistfélag ætlar að byggja allt að tólfhundruð íbúðir á Ártúnshöfða í Reykjavík og er áætlað að þær verði komnar í gagnið innan fimm ára.

<>

Íbúðirnar miðast við þarfir mismunandi hópa. Félagið hefur keypt áttatíuþúsund fermetra byggingarétt í Ártúnshöfða.

Það er Þorpið 6 ehf, dótturfélag Þorpsins vistfélags sem keypti landið af félagi í eigu Agros fjárfestingasjóðs og er kaupverðið sjö milljarðar króna og stýrði Artica Finance fjármögnun verkefnisins. Í tilkynningu frá Þorpinu segir að þetta verði eitt alstærsta einstaka íbúðaverkefni einkaaðlia í sögu Reykjavíkur.

Runólfur Ágústsson verkefnastjóri þróunar hjá Þorpinu vistfélagi segir að framboð íbúða verði mjög fjölbreytt, þarna verði litlar ódýrar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur, einnig íbúðir fyrir aldraða auk íbúða fyrir almennan markað sem og leiguíbúðir.

Hann segir íbúðirnar eiga það sameiginlegt að vera grænar, það er að segja, vistvænar og umhverfisvottaðar. Sem fyrr segir eru kaupin á byggingaréttinum þegar fjármögnuð, en hvað með byggingaframkvæmdirnar?

„Það er bara næsta verk. Við erum auðvitað bara að hefja þá vinnu og hún gengur vel. Við erum búin að gera rammasamning við verktakafyrirtæki um fyrsta áfanga og reiknum með að framkvæmdir hefjist líklega í maí, júní,“ segir Runólfur Ágústsson.

Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar um fjórtán mánuðum síðar.

„Við skiptum þessu stóra hverfi upp í þrjú minni og keyrum þetta samhliða þannig að við erum að horfa á það að taka í þessa uppbyggingu ekki meira en fimm ár.“

Þessi íbúðafjöldi samsvarar íbúðafjölda Ísafjarðar eða Neðra-Breiholts. Svæðið liggur að Krossmýrartorgi þar sem stefnt er að því að endastöð fyrsta áfanga Borgarlínu verði opnuð í júní árið 2025. Runólfur segir að það verði gefið upp síðar hvaða fjárfestar eru að baki verkefninu.

„Það verður gefið út á síðari stigum, en það er mjög breiður hópur og það er bara ánægjulegt að finna traust fjárfesta í þessu máli.

Við höfum auðvitað verið að byggja upp í Gufunesi og það hefur gengið vel, við erum með verkefni hér og þar um borgina og þessi verkefni eru að ganga vel og fjárfestar vilja fjárfesta með okkur. Það er bara ánægjulegt.“

Heimild: Ruv.is