Framkvæmdastjóri Íslandshótela vonast til þess að hægt verði að hefjast handa við uppbyggingu á svokölluðum Blómavalsreit bak við Grand Hótel snemma á næsta ári.
Þar stendur til að byggja 109 íbúðir í sex fjölbýlishúsum, auk viðbyggingar við hótelið.
Allt frá því árið 2015 hefur verið í gildi deiliskipulag sem heimilar uppbyggingu rúmlega eitt hundrað íbúða í Sigtúni í Reykjavík, á svokölluðum Blómavalsreit.
Lóðin er í eigu félags á vegum Íslandshótela og hefur verið skipulögð í tengslum við fyrirhugaða stækkun Grand Hótels.
Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela segir við Kjarnann að vonast sé til að framkvæmdir á reitnum geti hafist snemma á næsta ári, en stefnt er að því að byggja 109 íbúðir á reitnum í sex fjölbýlishúsum.
Verkefnið hefur verið á ís í nokkur ár og játar Davíð Torfi því að verkefnið hafi tafist, núna síðast vegna kórónuveirufaraldursins.
Nú sé hins vegar útlit fyrir að það styttist í að hægt verði að ráðast í verkefnið, sem felur auk íbúðauppbyggingarinnar í sér að Grand Hótel verði stækkað allnokkuð.
Hvenær framkvæmdir hefjist fari eftir því hvernig fjármögnunarferlið gangi.
Íbúðir fjærst hótelinu byggðar fyrst
Davíð Torfi segir hann reikni með því að ráðist verði í verkið í fjórum áföngum, en að byrjað verður á því að grafa fyrir bílakjallara sem á að verða undir öllum Blómavalsreitnum og teygja sig sömuleiðis inn undir hótellóðina, með stæðum fyrir mörg hundruð bíla.
Áætlað byggingarmagn verkefnisins í heildina er um 40 þúsund fermetrar.
Hann segir að eins og áætlanirnar líti út – og tekur fram að þær geti tekið breytingum – sé stefnt að því að fyrstu húsin rísi yst á reitnum, þ.e. fjærst Grand Hótel og næst höfuðstöðvum Ungmennafélags Íslands.
Þá er reiknað með því að síðasta skref uppbyggingarinnar verði viðbyggingin við hótelið.
Davíð Torfi segir ljóst að vanda þurfi til verka er varðar uppbyggingu á reitnum, enda sé áætlað að hafa Grand Hótel í fullum rekstri á meðan unnið sé að verkinu.
Til stóð að hefjast handa árið 2017
Uppbyggingarverkefnið byggir sem áður segir á að skipulagi frá árinu 2015.
Fjallað var um málið í Morgunblaðinu sumarið 2017 og sagði þar frá því að til stæði að að hefja framkvæmdir þá um haustið og opna stærra Grand Hótel árið 2020, en ekkert varð af því og reiturinn hefur staðið algjörlega óhreyfður síðan.
Eins og skýringarmyndir í deiliskipulagi líta út er reiknað með því að húsin sem standa næst aðliggjandi íbúðabyggð við Sigtún verði á þremur hæðum og kallist þannig á við eldri húsin sem standa gegnt reitnum og eru á 3-4 hæðum.
Sunnar á reitnum er svo gert ráð fyrir háreistari byggingum umhverfis inngarð, sem ráðgert er að verði á milli húsanna.
Heimild: Kjarninn.is