Mikilvægt framfaraskref fyrir hluta byggðar í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Hitaveita Hornafjarðar var tekin formlega í notkun 18. október sl. en lagningu nýrrar hitaveitu fyrir Höfn og hluta Nesja er nú að ljúka.
Heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var hleypt á stærstan hluta Hafnar síðastliðinn vetur en nú hefur dreifikerfi verið lagt í þann hluta sem áður var með beina rafhitun þannig að allir íbúar Hafnar hafa nú möguleika á að tengjast hitaveitunni.
Síðustu áratugi hefur verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar.
Síðustu ár hefur verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.
Hitaveita Hornafjarðar er í eigu RARIK sem hefur sett mikla vinnu og fjármuni í leit að heitu vatni á undanförnum árum.
Skipulögð leit að virkjanlegum jarðhita í Austur Skaftafellssýslu hefur staðið yfir frá því upp úr 1990 og hafa verið boraðar samtals 54 rannsóknaholur og fimm 1100 til 1750 metra djúpar vinnsluholur í landi Hoffells.
Frá 1992 til 2002 kostuðu Sveitarfélagið Hornafjörður og Orkustofnun jarðhitaleitina en RARIK kom að verkefninu 2002.
Fram til 2006 voru boraðar 33 rannsóknaholur en eftir að RARIK keypti jarðhitaréttindin í Hoffelli 2012 hefur verið boruð 21 rannsóknahola til viðbótar og áðurgreindar fimm vinnsluholur.
30 til 95 sek/lítrar af 70-78 gráðu heitu vatni
Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK fagnaði verklokum í ávarpi sem hann flutti við formlega opnun nýju hitaveitunnar á Höfn í dag.
Hann sagði þetta hafa verið stórt og farsælt verkefni sem að mati RARIK hefði alla burði til að verða stórt framfaraskref fyrir byggðina í Hornafirði.
Í máli hans kom fram að árangur af borun vinnsluhola við Hoffell hafi verið betri en búist var við en nú eru fjórar vinnsluholur tiltækar fyrir hitaveituna.
Þrjár þeirra hafa þegar verið virkjaðar og eina er hægt að virkja síðar. Áætluð afkastageta svæðisins í heild er 95 lítrar/sek við toppálag í stuttan tíma en um 30-40 lítrar/sek til lengri tíma.
Að jafnaði dugar ein hola fyrir hitaveituna en tvær við mesta álag og þá er ein til vara, auk þess sem ein hola er óvirkjuð.
Hiti vatnsins þegar það kemur inn á dreifikerfið við Höfn er 70 gráður við minnsta álag en 78 gráður við mesta álag.
Sagði Tryggvi það mat vísindamanna að jarðhitasvæðið í Hoffelli og uppsett kerfi geti staðið undir umtalsverðri stækkun byggðar eða fjölgun notenda frá því sem nú er.
Kostnaður 3,5 milljarðar króna
Í máli Tryggva Þórs kom jafnframt fram að kostnaður RARIK við virkjun jarðvarmans, lagningu 20 km. stofnpípu frá virkjunarsvæðinu við Hoffell til Hafnar og uppbygging dreifikerfis nemi um 3,5 milljörðum króna.
Hann sagði að gert væri ráð fyrir því að kostnaður notenda af nýju hitaveitunni yrði svipaður fyrstu árin og var hjá gömlu fjarvarmaveitunni en þegar búið væri að ná niður mesta fjármagnskostnaðinum vegna framkvæmdanna væri allar forsendur til að lækka verðið og taldi hann hitaveituna á Höfn hafa alla burði til þess að verða mjög hagkvæma þegar til lengri framtíðar væri litið.
Aðkoma ríkisins forsenda hagkvæmni
Tryggvi Þór sagði að forsenda þess að ný hitaveita gæti orðið hagkvæm væri að sambærilegt fjármagn kæmi úr ríkissjóði inn í verkefnið og til annarra nýrra hitaveitna.
Þar hafi ríkissjóður komið með eingreiðslu sem nemur 16 ára rafhitaniðurgreiðslum þeirra sem tengjast hitaveitu og hafa verið með niðurgreiðslu á beinni rafhitun.
Að auki hafi komið eingreiðsla vegna hitaniðurgreiðslna sem íbúar fjarvarmaveitunnar hafi notið.
Sagði Tryggvi Þór að gert væri ráð fyrir að íbúar sem eru með niðurgreidda rafhitun fái um 35% af 16 ára niðurgreiðslum sínum upp í kostnað við breytingar a húsum en veitan fái 65%.
Hann þakkaði stjórnvöldum aðkomu þeirra að þessu verkefni með rannsóknarstyrkjum í upphafi og síðan eingreiðslustyrkjum.
30 ára leit er loks að skila árangri
„Tilkoma hitaveitu í Sveitarfélagið Hornafjörð er gríðarlega mikilvægt framfaraskref.
Unnið hefur verið að jarðhitaleit í um 30 ár sem loksins er að skila árangri“ sagði Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri á Höfn við þetta tækifæri. Hún sagði að íbúar myndu ekki finni fyrir mikilli kostnaðarlækkun fyrstu árin en þau bindi vonir við að til lengri tíma verði húshitunarkostnaður hagkvæmari.
Fyrirtæki myndu þó finna fyrir breytingu strax sem hefði jákvæð áhrif á rekstur þeirra.
„Samstarfið við starfsmenn RARIK á framkvæmdatíma hefur verið afar gott og vil ég nota tækifærið og þakka fyrir það góða samstarf,” sagði Matthildur.
Framlag ríkisins rúmur 1 milljarður
Benedikt Árnason ráðneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var fulltrúi ráðuneytisins við þetta tækifæri.
Hann sagði hitaveituframkvæmdina í Hornafirði í fullu samræmi við áherslur stjórnvalda undanfarin ár og áratugi um hitaveituvæðingu landsins.
Þjóðhagsleg hagkvæmni hitaveitna í samanburði við hitun með rafmagni eða olíu væri margsönnuð.
Hann sagði að vegna skorts á iðnaðarmönnum myndi ráðuneytið veita notendum viðbótartíma til að geta nýta sér hitaveituna og þeir muni því ekki þurfa að vera farnir af niðurgreiðslum 9 mánuðum eftir að þeir tengjast hitaveitunni.
Hann sagði að áætlað væri að eingreiðsla frá ríkinu í stað niðurgreiðslna vegna nýrrar hitaveitu á Höfn og nágrenni næmi rúmum 1 milljarði og eftirstöðvar séu um 500 milljónir króna.
Sagði hann að ríkið myndi á næstu tveimur árum tryggja þær eingreiðslur til viðbótar þeim framlögum sem þegar hafa komið til framkvæmdarinnar.
Margir lögðu hönd á plóg
Auk starfsmanna RARIK komu alls um 40 verktakar og birgjar að verkefninu.
Meðal þeirra má nefna:
Jarðhitaleit og frumrannsóknir: Stapi jarðfræðistofa,
Frumhönnun: Vilhelm Steindórsson,
Jarðhitaleit, rannsóknir og ráðgjöf: ÍSOR
Hönnun kerfis: Efla verkfræðistofa
Eftirlit: Mannvit verkfræðistofa
Jarðhitaborun: Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf.
Lagning stofnlagnar: Rósaberg
Lagning innanbæjarkerfis á Höfn: Gröfuþjónusta Olgeirs ehf.
Bygging mannvirkja: Húsheild ehf.
Suða og stálsmíði: Vélsmiðjan Foss ehf.
Efni í stofnpípu og dreifikerfi: Set ehf.
Heimild: Hornarfjörður.is