Home Fréttir Í fréttum Frestun nýbygginga ógnar öryggi sjúklinga

Frestun nýbygginga ógnar öryggi sjúklinga

47
0
Drög að nýjum landspítala.

Í nýrri skýrslu er lagt til að fresta eigi byggingu nýs Landspítala vegna mögulegra þensluáhrifa. Yfirmaður lækninga á Landspítalanum segir öryggi sjúklinga í húfi ef byggingu spítalans verður frestað. Hagkvæmara að byggja nær miðjuStaðsetning Landspítalans var til umræðu á fundi sem Samtök atvinnulífsins héldu á Reykjavík Natura í morgun. Framtíðarstaðsetningin er umdeild og um það eru skiptar skoðanir, bæði meðal stjórnmálamanna og stjórnenda spítalans. Í skýrslu rannsóknarstofnunar atvinnulífsins kemur fram að hagkvæmara sé að byggja austar og nær miðju höfuðborgarsvæðisins. Ábyrgðarhluti af hálfu ríkisins að fara í framkvæmdir

<>

Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur og höfundur skýrslunnar segir varasamt að fara í svona miklar framkvæmdir sem auki á þenslu og því ástæða til að staldra við í nokkur ár. Það sé ábyrgðarhluti af ríkisins hálfu að fara inn með svona stóra framkvæmd á næstu tveimur til þremur árum og þar með auka á þensluna. „Það eru ýmsar ástæður fyrir því að staldra aðeins við og hugsa málið til enda. Það getur vel verið að það verði niðurstaðan að halda áfram við Hringbraut. Það er bara allt gott og blessað. En það getur líka verið niðurstaðan að fara með spítalann annað og við verðum í þessu samhengi, ekki næstu tíu árin heldur næstu hundrað árin,“ segir Gunnar.

Rekstrarsparnaður þrír milljarðar á ári

Hann segir að það sé dýrt að reka spítalann á tveimur stöðum. Ef starfsemin yrði á sama stað myndi það leiða til 6-7 prósenta sparnaðar, það eru rúmir þrír milljarðar á ári. „Þetta hefur tekið alltof langan tíma. Staðarvalið var ákveðið 2002 en það er fyrst núna 2015 sem glittir í framkvæmdir sem við reyndar leggjum til að verði frestað. Við teljum hins vegar að ef staðsetningin verður ákveðin annars staðar þá ætti það ekki að bitna á framkvæmdinni sem slíkri vegna þess að þá er hægt að byggja á nýjum stað, opnu svæði, byggja hraðar sem myndi jafna út þann framkvæmdatíma sem gert er ráð fyrir á Hringbraut sem þarf að taka í áföngum til þess að aðlaga þeim byggingum sem fyrir eru.“ Engar skýrar vísbendingar um að hverfa frá HringbrautFjórir staðir hafa einkum verið nefndir sem möguleg staðsetning spítalans. Við Hringbraut, Sævarhöfða, Keldnaholti og við Vífilsstaði.

Gunnar Tryggvason, verkefnastjóri hjá KPMG, ræddi um forsendur og hagkvæmni þess að staðsetja nýjan spítala við Hringbraut. Hann segir að það séu engar skýrar vísbendingar um að einhver ákveðin staðsetning sé betri en Hringbraut. „Við komumst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ástæða til að rífa upp fyrri áform. Það eru engar skýrar vísbendingar um að þessir staðir séu betri. Við teljum að málið sé það langt komið að það verði að vera skýr vísbending um það til þess að það sé hægt að leggja það til að horfið verði frá þessari ákvörðun með Hringbraut og málið tekið upp að nýju. Alltof mikil áhersla á staðsetninguÓlafur Baldursson, yfirmaður lækninga á Landspítalanum segir óeðlilega mikla áherslu á staðsetningu spítalans í skýrslunni.

Hann segir öryggi sjúklinga í húfi og ef nýr spítali verður ekki byggður í uppsveiflu í efnahagslífinu þá verður það sennilega aldrei gert. „Skýrslan er þannig að þar er hreinlega öllu grautað saman. Menn eru ekki með augun á boltanum og þegar menn gera slíkt þá hitta þeir ekki boltann og ekki markið. Það er alltof mikil áhersla lögð á staðsetningu og þenslu í hagkerfinu. Þetta snýst um öryggi sjúklinga og gæðamál og við verðum að halda áfram að sækja fram þar til þess þarf að byggja nýjar byggingar sem allra allra fyrst.“ „Við megum engan tíma missa“Ólafur segir að húsnæðið sé stór þáttur að bættum árangri í öryggis- og gæðamálum í heilbrigðiskerfinu „Hér vantar sókn í öryggismálum í heilbrigðiskerfinu fyrir sjúklinga, fyrir okkur öll, fyrir landsmenn. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Við megum engan tíma missa, við verðum að sækja fram að það þarf að gerast strax.“Ef ekki núna, hvenær þá?

Hann segir að Hringbraut sé langsamlegasta hagkvæmasta staðsetningin. Hann furðar sig á tillögum Gunnars Alexanders um frestun nýbygginga vegna efnahagsstöðunnar. „Þarna er talað um þenslu í efnahagsmálum sem ástæðu fyrir að fara ekki í þessa framkvæmd. Þá spyr ég, á þá ekki að huga að jafn mikilvægum öryggismálum fyrir öryggi sjúklinga eins og bygging nýs húsnæðis er? Á þá ekki að gera það þegar það eru uppsveiflutímar? Það var sannarlega ekki gert í kreppunni, þá var hér 20 prósent niðurskurður. Hvenær á að gera það þá?“, segir Ólafur.

Heimild: Rúv.is