Home Fréttir Í fréttum „Ef þú þrengir skorður um of þá leita við­skipti annað“

„Ef þú þrengir skorður um of þá leita við­skipti annað“

29
0
Páll Guð­munds­son, for­stöðumaður útlánaáhættu Lands­bankans, fór yfir áhrifin af CRRI­II fyrir fullum sal í höfuðstöðvum Lands­bankans fyrr í mánuðinum. Ljósmynd: Aðsend mynd

For­stöðumaður Útlánaáhættu Lands­bankans segir að ekki sé víst að allir verk­takar muni geta mætt kröfum um aukið eigið fjár­fram­lag reglu­verks ESB svo fram­kvæmdar­lán fái lægri áhættu­vog.

Páll Guð­munds­son, for­stöðumaður Útlánaáhættu Lands­bankans, segir að langstærstur hluti af fram­kvæmdalánum bankans fari í 150% áhættu­vog, eftir að CRR III-reglu­verkið verður samþykkt af Alþingi í haust líkt og stendur til.

Að sögn Páls þýðir það þó ekki endi­lega að svo verði í framtíðinni.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í síðustu viku gæti inn­leiðing Capi­tal Requirements Regulation III (CRR III), nýs reglu­verks Evrópu­sam­bandsins um eigin­fjárkröfur banka, hækkað vexti á fram­kvæmdalánum um allt frá 1 til 1,9 pró­sentu­stig.

Í ný­legri greiningu Lands­bankans á áhrifum reglu­verksins kemur fram að saman­lögð útlán bankanna til byggingar­starf­semi voru 338 milljarðar í lok ágúst. Inn­leiðing CRR III mun því auka vaxta­kostnað í greininni um 3,5 til 4,5 milljarða.

Við­skipta­blaðið greindi frá því í vor að reglu­verkið myndi lækka áhættu­vegnar eignir (REA) ís­lenskra banka um á annað hundrað milljarða.

Hins vegar hefur ávallt verið ljóst að reglu­verkið myndi hafa neikvæð áhrif á eigin­fjár­hlut­fall fram­kvæmdalána, sem myndi hafa mest áhrif til hækkunar á áhættu­vegum eignum.

Til ein­földunar þá er áhættu­grunnur reiknaður eftir áhættu­vog (%) sem ræðst m.a. af eigin­leikum útláns og lán­taka. Því hærri sem áhættu­vogin er því meiri áhætta fylgir láninu sem leiðir til meiri eigin­fjár­bindingar bankans sem eykur kostnað við lán­veitingu.

„Það er hægt að ná lægri áhættu­vog með því að leggja fram meira eigið fé í upp­hafi og þá lækka eigin­fjárkröfur hjá bankanum og kostnaðurinn við lánin þar af leiðandi. En það að verk­taki eða fyrir­tæki leggi fram meira eigið fé inn í verk­efni er heldur ekki ókeypis og ekkert endi­lega mögu­legt fyrir alla verk­taka,“ segir Páll.

Spurður um mögu­leikann á að fjár­málastöðug­leika­nefnd lækki eigin­fjárauka á ákveðin lán segir hann nefndina verða að svara fyrir það.

„Það hefur áhrif og það væri hægt að horfa á eiginfjárkröfur eða eiginfjáraukana ef við viljum hafa meiri auka á tilteknum geirum og slaka annars staðar, meðal annars út frá stærri markmiðum eins og að við viljum ekki ýta upp byggingarkostnaði upp úr öllu marki,“ segir Páll.

Ís­lensk heimili hafa verið að sækja mun meira í verð­tryggð húsnæðislán frá líf­eyris­sjóðunum en áður sam­kvæmt tölum frá Seðla­bankanum í septem­ber nam útlána­vöxturinn á fyrstu sjö mánuðum ársins yfir 80 milljörðum, meira en allt árið í fyrra þegar líf­eyris­sjóðirnir lánuðu sam­tals um 67 milljarða til sjóðs­félaga sinna.

Spurður um hvort líkur séu á að reglu­verkið muni ýta undir aukin lán utan hins hefðbundna banka­kerfis segir Páll að sú þróun gæti haldið áfram.

„Reglu­verkið gildir um banka og verðbréfa­fyrir­tæki en ekki líf­eyris­sjóði. Þetta snertir því ekki alla lán­veit­endur með sama hætti. Hvort þessar breytingar á reglu­verkinu muni hafa þessi áhrif er erfitt að segja til um. Það ætti fremur að skoða þetta í sam­hengi við allar þær breytingar sem hafa verið inn­leiddar á síðustu tíu til fimmtán árum í átt að stífara reglu­verki.

Mikið af því er til góðs og bætir öryggi og dregur úr áhættu en það er vert að spyrja þeirrar spurningar, oftar núna en var gert í byrjun, hvað aukið öryggi og minni áhætta kostar og hvað það má kosta. Við ein­hver mörk fara við­skipta­vinir, fólk og fyrir­tæki, að leita annað þar sem hægt er að fá lán á betri kjörum vegna þess að reglu­verkið er ekki eins íþyngjandi.

Þá erum við farin að draga úr þeim öryggisþáttum sem reglu­verkið inn­leiðir. Þá gerir það minna en ekkert gagn. Þessi þróun er þannig að ef þú þrengir skorður um of eða eykur kostnað um of þá leita við­skipti annað og þá ertu ekki að stýra áhættunni eins þar og það býður upp á óvissuna sem því fylgir,“ segir Páll.

Páll segir að Landsbankinn muni reyna að vinna með verktökum til að finna leiðir til að þeir geti uppfyllt þessar kröfur og komist þannig hjá auknum kostnaði, eins og hægt er.

Milli­lags­fjár­mögnun til að brúa bilið
Úlfar Freyr Stefáns­son, fram­kvæmda­stjóri áhættustýringar Arion banka, segir að flest fram­kvæmdalán í núverandi lána­safni Arion banka muni falla í 150% flokkinn. „Það eru hins vegar tækifæri til að breyta því fyrir nýjar lán­veitingar, sér í lagi eftir að krafan um eigin­fjár­fram­lag var lækkuð úr 35% í 25%.

Sú breyting gefur bankanum meiri mögu­leika á að veita lán sem komast hjá því að lenda í 150% flokknum og það verður þannig heil­brigður hvati til áhættumildunar í takt við venjur á þessum markaði. Um­rædd breyting á áhættu­vogum gæti hins vegar leitt til breytinga á markaðnum með til­komu milli­lags­fjár­mögnunar til að brúa bilið.

Úlfar Freyr Stefánsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Arion banka
© Eyþór Árnason

„Bankinn lánar upp að vissu marki þannig að hann verður undir mörkum hvað varðar eigin­fjár­bindinguna og þá skapast tækifæri fyrir aðila utan banka­kerfisins að stíga inn og lána það sem vantar upp á og tekur eðli máls sam­kvæmt meiri áhættu,“ segir Úlfar.

Byggingar­verk­takar gætu þannig lagt fram eigið fé eftir getu og verið með blöndu af bankaláni og milli­lags­fjár­mögnun. Spurður um hvort það muni þó ekki hafa í reynd sömu áhrif á kostnað við fram­kvæmdir og þar af leiðandi íbúðar­verð ef byggingar­verk­taki þurfi að leggja fram 25% af sölu­verðmæti eignar, svarar Úlfar:

„Fjár­magns­kostnaður mun hækka hvort sem það kemur í gegnum aukið eigin­fjár­fram­lag eða hærri vaxta­kostnað.“

Heimild: Vb.is